Þórarinn búandi í Tungu lýsir því að hann vildi selja Tunguland. Var það
bæði að honum þurru lausafé enda þótti honum mjög vaxa þústur milli manna í
héraðinu en honum var kært við hvoratveggju. Bolli þóttist þurfa að kaupa
sér staðfestu því að Laugamenn höfðu fá lönd en fjölda fjár. Þau Bolli og
Guðrún riðu í Tungu að ráði Ósvífurs. Þótti þeim í hönd falla að taka upp
land þetta hjá sér sjálfum og bað Ósvífur þau eigi láta smátt slíta. Síðan
réðu þau Þórarinn um kaup þetta og urðu ásátt hversu dýrt vera skyldi og svo
það er í móti skyldi vera og var mælt til kaups með þeim Bolla. En því var
kaupið eigi vottum bundið að eigi voru menn svo margir hjá að það þætti vera
lögfullt. Ríða þau Bolli og Guðrún heim eftir þetta.
En er Kjartan Ólafsson spyr þessi tíðindi ríður hann þegar við tólfta mann
og kom í Tungu snemma dags. Fagnar Þórarinn honum vel og bauð honum þar að
vera. Kjartan kvaðst heim mundu ríða um kveldið en eiga þar dvöl nokkura.
Þórarinn frétti að um erindi.
Kjartan svarar: "Það er erindi mitt hingað að ræða um landkaup það nokkuð er
þér Bolli hafið stofnað því að mér er það í móti skapi ef þú selur land
þetta þeim Bolla og Guðrúnu."
Þórarinn kvað sér vanhenta annað "því að verðið skal bæði ríflegt, það er
Bolli hefir mér fyrir heitið landið, og gjaldast skjótt."
Kjartan mælti: "Ekki skal þig í skaða þó að Bolli kaupi eigi landið því að
eg mun kaupa þvílíku verði og ekki mun þér duga mjög í móti að mæla því sem
eg vil vera láta því að það mun á finnast að eg vil hér mestu ráða í héraði
og gera þó meir eftir annarra manna skaplyndi en Laugamanna."
Þórarinn svarar: "Dýrt mun mér verða drottins orð um þetta mál. En það væri
næst mínu skaplyndi að kaup þetta væri kyrrt sem við Bolli höfum stofnað."