Guðrún kvað það góð tíðindi "en því aðeins er Kjartani fullboðið ef hann fær
góða konu" og lét þá þegar falla niður talið, gekk á brott og var allrauð.
En aðrir grunuðu hvort henni þætti þessi tíðindi svo góð sem hún lét vel
yfir.
Bolli er heima í Hjarðarholti um sumarið og hafði mikinn sóma fengið í ferð
þessi. Þótti öllum frændum hans og kunningjum mikils um vert hans vaskleik.
Bolli hafði og mikið fé út haft. Hann kom oft til Lauga og var á tali við
Guðrúnu.
Eitt sinn spurði Bolli Guðrúnu hversu hún mundi svara ef hann bæði hennar.
Þá segir Guðrún skjótt: "Ekki þarftu slíkt að ræða Bolli. Engum manni mun eg
giftast meðan eg spyr Kjartan á lífi."
Bolli svarar: "Það hyggjum vér að þú verðir að sitja nokkura vetur mannlaus
ef þú skalt bíða Kjartans. Mundi hann og kost hafa átt að bjóða mér þar um
nokkuð erindi ef honum þætti það allmiklu máli skipta."
Skiptust þau nokkurum orðum við og þótti sinn veg hvoru. Síðan ríður Bolli
heim.
43. kafli - Kvonfang Bolla
Nokkuru síðar ræðir Bolli við Ólaf frænda sinn og mælti: "Á þá leið er
frændi komið að mér væri á því hugur að staðfesta ráð mitt og kvongast.
Þykist eg nú vera fullkominn að þroska. Vildi eg til hafa þessa máls þitt
orða- fullting og framkvæmd því að þeir eru hér flestir menn að mikils munu
virða þín orð."
Ólafur svarar: "Þær eru flestar konur að vér munum kalla að þeim sé
fullboðið þar er þú ert. Muntu og eigi hafa þetta fyrr upp kveðið en þú munt
hafa statt fyrir þér hvar niður skal koma."
Bolli segir: "Ekki mun eg mér úr sveit á brott biðja konu meðan svo nálægir
eru góðir ráðakostir. Eg vil biðja Guðrúnar Ósvífursdóttur. Hún er nú frægst
kvenna."
Ólafur svarar: "Þar er það mál að eg vil engan hlut að eiga. Er þér Bolli
það í engan stað ókunnara en mér hvert orðtak á var um kærleika með þeim
Kjartani og Guðrúnu. En ef þér þykir þetta allmiklu máli skipta þá mun eg
leggja engan meinleika til ef þetta semst með yður Ósvífri. Eða hefir þú
þetta mál nokkuð rætt við Guðrúnu?"