This section is a bit longer than usual, but there didn't seem to be a good
place to stop otherwise.
Grace

Ólafur svarar: "Eigi mun eg gripina lausa láta Þorleikur því að þú leyfðir
þvílíka fégjöf við vitni. Mun eg til þess hætta hvort eg fæ haldið."
Bárður kvaðst vilja samþykkja ráði föður síns. Eftir þetta andaðist
Höskuldur. Það þótti mikill skaði, fyrst að upphafi sonum hans og öllum
frændum hans og tengdamönnum þeirra og vinum. Synir hans láta verpa haug
virðulegan eftir hann. Lítið var fé borið í haug hjá honum. En er því var
lokið þá taka þeir bræður tal um það að þeir muni efna til erfis eftir föður
sinn því að það var þá tíska í það mund.
Þá mælti Ólafur: "Svo líst mér sem ekki megi svo skjótt að þessi veislu snúa
ef hún skal svo virðuleg verða sem oss þætti sóma. Er nú mjög á liðið
haustið en ekki auðvelt að afla fanga til. Mun og flestum mönnum þykja
torvelt, þeim er langt eiga til að sækja, á haustdegi og vís von að margir
komi eigi þeir er vér vildum helst að kæmu. Mun eg og nú til þess bjóðast í
sumar á þingi að bjóða mönnum til boðs þessa. Mun eg leggja fram kostnað að
þriðjungi til veislunnar."
Þessu játta þeir bræður en Ólafur fer nú heim. Þeir Þorleikur og Bárður
skipta fé með sér. Hlýtur Bárður föðurleifð þeirra því að til þess héldu
fleiri menn því að hann var vinsælli. Þorleikur hlaut meir lausafé. Vel var
með þeim bræðrum Ólafi og Bárði og blítt en heldur styggt með þeim Ólafi og
Þorleiki.
Nú líður sjá hinn næsti vetur og kemur sumar og líður að þingi. Búast þeir
Höskuldssynir nú til þings. Var það brátt auðsætt að Ólafur mundi mjög vera
fyrir þeim bræðrum. Og er þeir koma til þings tjalda þeir búð sína og
bjuggust um vel og kurteislega.

27. kafli - Af Ólafi
Það er sagt einn dag þá er menn ganga til Lögbergs, þá stendur Ólafur upp og
kveður sér hljóðs og segir mönnum fyrst fráfall föður síns, "eru hér nú
margir menn, frændur hans og vinir. Nú er það vilji bræðra minna að eg bjóði
yður til erfis eftir Höskuld föður vorn, öllum goðorðsmönnum því að þeir
munu flestir hinir gildari menn er í tengdum voru bundnir við hann. Skal og
því lýsa að engi skal gjafalaust á brott fara hinna meiri manna. Þar með
viljum vér bjóða bændum og hverjum er þiggja vill, sælum og veslum. Skal
sækja hálfsmánaðar veislu á Höskuldsstaði þá er tíu vikur eru til vetrar."

Fred & Grace Hatton
Hawley, Pa.