Þórólfur unir illa við sinn hlut. Þykist hann mjög svívirður vera í þeirra
skiptum. Er hann þar þó í eyjunum og hefir það að vísu í hug sér að rétta
þenna krók er honum var svo nauðulega beygður. Hallur uggir ekki að sér og
hugsar það að engir menn muni þora að halda til jafns við hann þar í átthaga
hans.

Það var einn góðan veðurdag að Hallur reri og voru þeir þrír á skipi. Bítur
vel á um daginn. Róa þeir heim að kveldi og eru mjög kátir. Þórólfur hefir
njósn af athöfn Halls um daginn og er staddur í vörum um kveldið þá er þeir
Hallur koma að landi. Hallur reri í hálsi fram. Hann hleypur fyrir borð og
ætlar að taka við skipinu. Og er hann hleypur á land þá er Þórólfur þar nær
staddur og höggur til hans þegar. Kom höggið á hálsinn við herðarnar og
fýkur af höfuðið. Þórólfur snýr á brott eftir það en þeir félagar Halls
styrma yfir honum.

Spyrjast nú þessi tíðindi um eyjarnar, víg Halls, og þykja það mikil tíðindi
því að maður var kynstór þótt hann hefði engi auðnumaður verið. Þórólfur
leitar nú á brott úr eyjunum því að hann veit þar engra þeirra manna von er
skjóli muni skjóta yfir hann eftir þetta stórvirki. Hann átti þar og enga
frændur þá er hann mætti sér trausts af vænta en þeir menn sátu nær er vís
von var að um líf hans mundu sitja og höfðu mikið vald svo sem var Ingjaldur
Sauðeyjargoði bróðir Halls.

Þórólfur fékk sér flutning inn til meginlands. Hann fer mjög huldu höfði. Er
ekki af sagt hans ferð áður hann kemur einn dag að kveldi á Goddastaði.
Vigdís kona Þórðar godda var nokkuð skyld Þórólfi og sneri hann því þangað
til bæjar. Spurn hafði Þórólfur af því áður hversu þar var háttað, að Vigdís
var meiri skörungur í skapi en Þórður bóndi hennar. Og þegar um kveldið er
Þórólfur var þar kominn gengur hann til fundar við Vigdísi og segir henni
til sinna vandræða og biður hana ásjá.



Fred and Grace Hatton
Hawley Pa