6. kafli - Enn af Unni

Eftir það gefur Unnur fleirum mönnum af landnámi sínu. Herði gaf hún
Hörðadal allan út til Skrámuhlaupsár. Hann bjó á Hörðabólstað og var mikill
merkismaður og kynsæll. Hans son var Ásbjörn auðgi er bjó í Örnólfsdal á
Ásbjarnarstöðum. Hann átti Þorbjörgu dóttur Miðfjarðar-Skeggja. Þeirra
dóttir var Ingibjörg er átti Illugi hinn svarti. Þeirra synir voru þeir
Hermundur og Gunnlaugur ormstunga. Það er kallað Gilsbekkingakyn.

Unnur mælti við sína menn: "Nú skuluð þér taka ömbun verka yðvarra. Skortir
oss nú og eigi föng til að gjalda yður starf yðvart og góðvilja. En yður er
það kunnigt að eg hefi frelsi gefið þeim manni er Erpur heitir, syni Melduns
jarls. Fór það fjarri um svo stórættaðan mann að eg vildi að hann bæri þræls
nafn."

Síðan gaf Unnur honum Sauðafellslönd á millum Tunguár og Miðár. Hans börn
voru þau Ormur og Ásgeir, Gunnbjörn og Halldís er átti Dala-Álfur. Sökkólfi
gaf hún Sökkólfsdal og bjó hann þar til elli. Hundi hét lausingi hennar.
Hann var skoskur að ætt. Honum gaf hún Hundadal. Vífill hét þræll Unnar hinn
fjórði. Hún gaf honum Vífilsdal.

Ósk hét hin fjórða dóttir Þorsteins rauðs. Hún var móðir Þorsteins surts
hins spaka er fann sumarauka. Þórhildur hét hin fimmta dóttir Þorsteins. Hún
var móðir Álfs í Dölum. Telur margt manna kyn sitt til hans. Hans dóttir var
Þorgerður, kona Ara Mássonar á Reykjanesi, Atlasonar, Úlfssonar hins
skjálga, og Bjargar Eyvindardóttur, systur Helga hins magra. Þaðan eru
komnir Reyknesingar. Vigdís hét hin sétta dóttir Þorsteins rauðs. Þaðan eru
komnir Höfðamenn í Eyjafirði.


7. kafli - Andlát Unnar

Ólafur feilan var yngstur barna Þorsteins. Hann var mikill maður og sterkur,
fríður sýnum og atgervimaður hinn mesti. Hann mat Unnur umfram alla menn og
lýsti því fyrir mönnum að hún ætlaði Ólafi allar eignir eftir sinn dag í
Hvammi. Unnur gerðist þá mjög ellimóð.

Hún kallar til sín Ólaf feilan og mælti: "Það hefir mér komið í hug frændi
að þú munir staðfesta ráð þitt og kvænast."

Ólafur tók því vel og kveðst hennar forsjá hlíta mundu um það mál.

Unnur mælti: "Svo hefi eg helst ætlað að boð þitt muni vera að áliðnu sumri
þessu því að þá er auðveldast að afla allra tilfanga því að það er nær minni
ætlan að vinir vorir muni þá mjög fjölmenna hingað því að eg ætla þessa
veislu síðast að búa."

Ólafur svarar: "Þetta er vel mælt. En þeirrar einnar konu ætla eg að fá að
sú ræni þig hvorki fé né ráðum."

Það sama haust fékk Ólafur feilan Álfdísar. Þeirra boð var í Hvammi. Unnur
hafði mikinn fékostnað fyrir veislunni því að hún lét víða bjóða tignum
mönnum úr öðrum sveitum. Hún bauð Birni bróður sínum og Helga bróður sínum
bjólan. Komu þeir fjölmennir. Þar kom Dala-Kollur mágur hennar og Hörður úr
Hörðadal og margt annað stórmenni. Boðið var allfjölmennt og kom þó hvergi
nær svo margt manna sem Unnur hafði boðið fyrir því að Eyfirðingar áttu
farveg langan.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa