1. Kafli

Ketill flatnefur hét maður son Bjarnar bunu. Hann var hersir ríkur í Noregi
og kynstór. Hann bjó í Raumsdal í Raumsdælafylki. Það er milli Sunnmærar og
Norðmærar. Ketill flatnefur átti Yngvildi dóttur Ketils veðurs, ágæts manns.
Þeirra börn voru fimm. Hét einn Björn hinn austræni, annar Helgi bjólan.
Þórunn hyrna hét dóttir Ketils er átti Helgi hinn magri son Eyvindar
austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs. Unnur hin djúpúðga var enn
dóttir Ketils er átti Ólafur hvíti Ingjaldsson Fróðasonar hins frækna er
Svertlingar drápu. Jórunn manvitsbrekka hét enn dóttir Ketils. Hún var móðir
Ketils hins fiskna er nam land í Kirkjubæ. Hans son var Ásbjörn faðir
Þorsteins, föður Surts, föður Sighvats lögsögumanns.


2. Kafli

Á ofanverðum dögum Ketils hófst ríki Haralds konungs hins hárfagra svo að
engi fylkiskonungur þreifst í landinu né annað stórmenni nema hann réði einn
nafnbótum þeirra. En er Ketill fréttir þetta, að Haraldur konungur hafði
honum slíkan kost ætlað sem öðrum ríkismönnum, að hafa frændur sína óbætta
en ger þó að leigumanni sjálfur, síðan stefnir hann þing við frændur sína og
hóf svo mál sitt: "Kunnig hafa yður verið skipti vor Haralds konungs og þarf
eigi þau að inna því að oss ber meiri nauðsyn til að ráða um vandkvæði þau
er vér eigum fyrir höndum. Sannspurðan hefi eg fjandskap Haralds konungs til
vor. Sýnist mér svo að vér munum eigi þaðan trausts bíða. Líst mér svo sem
oss séu tveir kostir gervir, að flýja land eða vera drepnir hver í sínu
rúmi. Er eg og þess fúsari að hafa slíkan dauðdaga sem frændur mínir en eigi
vil eg yður leiða í svo mikið vandkvæði með einræði mínu því að mér er
kunnigt skaplyndi frænda minna og vina, að þér viljið eigi við oss skiljast
þótt mannraun sé í nokkur að fylgja mér."

Björn son Ketils svarar: "Skjótt mun eg birta minn vilja. Eg vil gera að
dæmum göfugra manna og flýja land þetta. Þykist eg ekki af því vaxa þótt eg
bíði heiman þræla Haralds konungs og elti þeir oss af eignum vorum eða
þiggja af þeim dauða með öllu."

Að þessu var ger góður rómur og þótti þetta drengilega talað. Þetta ráð var
bundið, að þeir mundu af landi fara því að synir Ketils fýstu þessa mjög en
engi mælti í móti. Björn og Helgi vildu til Íslands fara því að þeir þóttust
þaðan margt fýsilegt fregnt hafa, sögðu þar landskosti góða og þurfti ekki
fé að kaupa. Kölluðu vera hvalrétt mikinn og laxveiðar en fiskastöð öllum
misserum.

Ketill svarar: "Í þá veiðistöð kem eg aldregi á gamals aldri."

Sagði Ketill þá sína ætlan, að hann var fúsari vestur um haf, kvaðst þar
virðast gott. Voru honum þar víða lönd kunnig því að hann hafði þar víða
herjað.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa