Þorsteinn mælti þá: "Nú er við ramman reip að draga er bæði er að eiga við
hund og tröll en aftur munum vér nú fara fyrst að sinni. En vilja skal eg
til hafa að sá verði fundur okkar Búa að við eigum ekki báðir frá að segja."

Eftir það sneru þeir aftur og báru förunauta sína með sér og undu allilla
við sína ferð. Var það og mál manna að þeim hefði allilla til tekist ferðin.


4. kafli

Búi fór heim og var Esja fóstra hans úti í dyrum og heilsaði vel Búa. Hann
tók og vel kveðju hennar.

Esja mælti: "Þóttist þú nú ekki liðfár vera um hríð?"

Búi mælti: "Eigi þurfti nú fleiri."

Esja mælti: "Eigi varstu nú einn í bragði með öllu."

Búi mælti: "Gott þykir mér góðs að njóta."

Esja mælti: "Mun þér ekki enn leiðast eltingar Þorsteins?"

"Þá vissi það," sagði Búi, "ef eg ætti nokkurs trausts von."

Esja mælti: "Til margs verður hætt jafnan."

Eftir það skildu þau talið.

Nú líður á til vetrar. Þá fer Búi einn aftan seint út í Brautarholt og var
þar um nóttina. Um morguninn fyrir dag var hann á fótum. Sneri hann þá
austur á holtið þar er hann sá gjörla til bæjarins að Hofi. Veður var
heiðríkt og bjart. Hann sá að maður kom út snemma að Hofi í línklæðum. Sá
sneri ofan af hliðinu og gekk stræti það er lá til hofsins. Kenna þóttist
Búi að þar var Þorsteinn. Búi sneri þá til hofsins og er hann kom þar sá
hann að garðurinn var ólæstur og svo hofið. Búi gekk þá inn í hofið. Hann sá
að Þorsteinn lá á grúfu fyrir Þór. Búi fór þá hljóðlega þar til er hann kom
að Þorsteini. Hann greip þá til Þorsteins með því móti að hann tók annarri
hendi undir knésbætur honum en annarri undir herðar honum. Með þeim hætti
brá hann Þorsteini á loft og keyrði höfuð hans niður við stein svo fast að
heilinn hraut um gólfið. Var hann þegar dauður. Búi bar hann þá út úr hofinu
og kastaði honum undir garðinn. Síðan sneri hann inn aftur í hofið. Hann tók
þá eldinn þann hinn vígða og tendraði. Síðan bar hann login um hofið og brá
í tjöldin. Las þar brátt hvað af öðru. Logaði nú hofið innan á lítilli
stundu. Búi sneri þá út og læsti bæði hofinu og garðinum og fleygði lyklunum
í logann. Eftir það gekk Búi leið sína.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa