Og munu Írar

angr um bíða,

það er aldrei mun

ýtum fyrnast.

Nú er vefr ofinn,

en völlr roðinn,

munu um lönd fara

læspjöll gota.

Nú er ógurlegt

um að litast

er dreyrug ský

dregr með himni.

Mun loft litað

lýða blóði

er sóknvarðar

syngja kunnu.

Vel kváðum vér

um konung ungan

sigrhljóða fjöld,

syngjum heilar.

En hinn nemi,

er heyrir á

geirfljóða hljóð,

og gumum segi.

Ríðum hestum

hart út berum

brugðnum sverðum

á braut heðan.

Rifu þær þá ofan vefinn og í sundur og hafði hver það er hélt á. Gekk
Dörruður nú í braut frá glugginum og heim en þær stigu á hesta sína og riðu
sex í suður en aðrar sex í norður.

Slíkan atburð bar fyrir Brand í Færeyjum Gneistason.

Á Íslandi að Svínafelli kom blóð ofan á messuhökul prests föstudaginn langa
svo að hann varð úr að fara.

Að Þvottá sýndist presti á föstudaginn langa sjávardjúp hjá altarinu og sá
þar í ógnir margar og var það lengi að hann mátti eigi syngja tíðirnar.

Sá atburður varð í Orkneyjum að Hárekur þóttist sjá Sigurð jarl og nokkura
menn með honum. Tók Hárekur þá hest sinn og reið til móts við jarl. Sáu menn
það að þeir fundust og riðu undir leiti nokkurt en þeir sáust aldrei síðan
og engi urmul fundust af Háreki.

Gilla jarl í Suðureyjum dreymdi það að maður kæmi að honum og nefndist
Herfinnur og kvaðst vera kominn af Írlandi. Jarl þóttist spyrja þaðan
tíðinda.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa