Óspakur mælti þá: "Þar sem blóði rigndi á yður þar munuð þér hella út margs
manns blóði, bæði yðru og annarra. En þar sem þér heyrðuð gný mikinn þar mun
yður sýndur heimsbrestur og munuð þér deyja allir brátt. En þar er vopnin
sóttu að yður, það mun vera fyrir orustu. En þar sem hrafnar sóttu að yður,
það eru óvinir þeir er þér trúið á og yður munu draga til helvítis kvala."
Bróðir varð svo reiður að hann mátti engu svara og fór þegar til manna sinna
og lét þekja sundið allt með skipum og bera strengi á land og ætlaði að
drepa þá alla eftir um morguninn. Óspakur sá ráðagerð þeirra alla. Þá hét
hann að taka trú rétta og fara til Brjáns konungs og fylgja honum til
dauðadags. Hann lét þá taka það til ráðs að þekja öll skipin og forka með
landinu og höggva strengi þeirra Bróður. Tók þá að reiða saman skipin en
þeir voru sofnaðir.
Þeir Óspakur fóru þá út úr firðinum og svo vestur til Írlands og léttu eigi
fyrr en þeir komu til Kunnjátta. Og sagði Óspakur Brjáni konungi allt það er
hann var vís orðinn og tók skírn og fal sig konungi á hendi.
Síðan lét Brjánn konungur safna liði um allt ríki sitt og skyldi kominn
herinn allur til Dyflinnar í vikunni fyrir pálmdrottinsdag.
157. kafli
Sigurður jarl Hlöðvisson bjóst af Orkneyjum. Flosi bauð að fara með honum.
Jarl vildi það eigi þar sem hann átti suðurgöngu sína að leysa. Flosi bauð
fimmtán menn af liði sínu til ferðarinnar en jarl þekktist það. En Flosi fór
með Gilla jarli í Suðureyjar. Þorsteinn Síðu-Hallsson fór með Sigurði jarli,
Hrafn hinn rauði, Erlingur af Straumey. Jarl vildi eigi að Hárekur færi en
kveðst segja honum mundu fyrstum tíðindin.
Sigurður jarl kom með allan her sinn að pálmadegi til Dyflinnar. Þar var
kominn Bróðir með sínu liði. Bróðir reyndi til með forneskju hversu ganga
mundi orustan. En svo gekk fréttin ef á föstudegi væri barist að Brjánn
konungur mundi falla og hafa sigur en ef fyrr væri barist þá mundu þeir
allir falla er í móti honum væru. Þá sagði Bróðir að föstudaginn skyldi
berjast. Fred and Grace Hatton
Hawley Pa