Þá var svo gert. Þá kom að í því Þorsteinn Síðu-Hallsson. Flosi átti
Steinvöru systur Þorsteins. Þorsteinn var hirðmaður Sigurðar jarls. En er
Þorsteinn sá Flosa höndlaðan þá gekk hann fyrir jarl og bauð fyrir Flosa
allt það góss er hann átti. Jarl var hinn reiðasti og hinn erfiðasti lengi.
En þó kom svo um síðir við umtölur góðra manna með Þorsteini, því að hann
var vel vinum horfinn og gengu margir til að flytja með honum, að jarl tók
sættum við þá og gaf Flosa grið og öllum þeim. Hafði jarl á því ríkra manna
hátt að Flosi gekk í þá þjónustu sem Helgi Njálsson hafði haft. Gerðist
Flosi þá hirðmaður Sigurðar jarls og kom hann sér brátt í kærleika mikla við
jarlinn.


154. kafli

Þeir Kári og Kolbeinn svarti létu út hálfum mánuði síðar af Eyrum en þeir
Flosi úr Hornafirði. Gaf þeim vel byri og voru skamma stund úti. Tóku þeir
Friðarey. Hún er á milli Hjaltlands og Orkneyja. Tók við Kára sá maður er
Dagviður hvíti hét. Hann sagði Kára allt um ferðir þeirra Flosa slíkt sem
hann hafði vís orðið. Hann var hinn mesti vin Kára og var Kári með honum um
veturinn. Höfðu þeir þá fréttir vestan um veturinn úr Hrosseyju allar þær er
þar gerðust.

Sigurður jarl bauð til sín að jólum Gilla jarli mági sínum úr Suðureyjum.
Hann átti Svanlaugu systur Sigurðar jarls. Þá kom og til Sigurðar jarls
konungur sá er Sigtryggur hét. Hann var af Írlandi. Hann var sonur Ólafs
kvarans en móðir hans hét Kormlöð. Hún var allra kvenna fegurst og best að
sér orðin um það allt er henni var ósjálfrátt en það er mál manna að henni
hafi allt verið illa gefið það er henni var sjálfrátt.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa