Þeir Kári Sölmundarson og Þorgeir skorargeir riðu þenna dag austur yfir
Markarfljót og svo austur til Seljalandsmúla. Þar fundu þeir konur nokkurar.
Þær kenndu þá og mæltu til þeirra: "Minna gemsið þið en þeir Sigfússynir en
þó farið þið óvarlega."
Þorgeir mælti: "Hví er ykkur svo statt til Sigfússona eða hvað vitið þið til
þeirra?"
"Þeir voru í nótt að Raufarfelli," sögðu þær, "og ætluðu í kveld í Mýdal. En
það þótti okkur gott er þeim var þó ótti að ykkur og spurðu nær þið munduð
heim koma."
Þá fóru þær leið sína en þeir keyrðu hestana.
Þorgeir mælti: "Hvað er þér næst skapi? Vilt þú að við ríðum eftir þeim?"
Kári svarar: "Eigi mun eg þess letja."
Þorgeir mælti: "Hvað skulum við ætla okkur?"
"Eigi veit eg það," segir Kári. "Kann það oft verða að þeir menn lifa langan
aldur er með orðum eru vegnir. En veit eg hvað þú munt þér ætla. Þú munt
ætla þér átta menn og er það þó minna en það er þú vóst þá sjö í skorinni og
fórst í festi ofan til þeirra. En yður frændum er svo háttað að þér viljið
yður allt til ágætis gera. Nú mun eg eigi minna að gera en vera hjá þér til
frásagnar. Skulum við nú og tveir einir eftir ríða því að eg sé að þú hefir
svo til ætlað."
Síðan riðu þeir austur hið efra og komu ekki í Holt því að Þorgeir vildi
ekki að bræðrum hans mætti um kenna hvað sem í gerðist. Þeir riðu þá austur
til Mýdals. Þar mættu þeir manni nokkurum og hafði torfhrip á hrossi.
Hann tók til orða: "Of fámennur ert þú nú Þorgeir félagi."
"Hvað er nú í því?" sagði Þorgeir.
"Því," sagði sjá, "að nú bæri veiði í hendur. Hér riðu um Sigfússynir og
munu sofa í allan dag austur í Kerlingardal því að þeir ætluðu ekki lengra í
kveld en til Höfðabrekku."
Síðan riðu hvorir leið sína. Riðu þeir Þorgeir austur á Arnarstakksheiði og
er ekki að segja frá ferð þeirra fyrr en þeir komu til Kerlingardalsár. Áin
var mikil. Riðu þeir nú upp með ánni því að þeir sáu þar hross með söðlum.
Þeir riðu nú þangað til og sáu að menn sofa í dæl nokkurri og stóðu spjót
þeirra ofan frá þeim. Þeir tóku spjótin og báru út á ána.