Þeir Flosi snerust þá við og eggjuðust nú fast hvorirtveggju.
Kári Sölmundarson sneri nú þar að sem fyrir var Árni Kolsson og Hallbjörn
hinn sterki. Og þegar er Hallbjörn sá Kára hjó hann til hans og stefndi á
fótinn en Kári hljóp í loft upp og missti Hallbjörn hans. Kári sneri að Árna
Kolssyni og hjó til hans og kom á öxlina og tók í sundur axlarbeinið og
viðbeinað og hljóp allt ofan í brjóstið. Féll Árni þegar dauður til jarðar.
Síðan hjó hann til Hallbjarnar og kom í skjöldinn og gekk í gegnum skjöldinn
og svo ofan af honum þumaltána. Hólmsteinn skaut spjóti til Kára en hann tók
á lofti spjótið og sendi aftur og verð það manns bani í liði Flosa.
Þorgeir skorargeir kom að þar er fyrir var Hallbjörn hinn sterki. Þorgeir
lagði til hans svo fast með annarri hendi að Hallbjörn féll fyrir og komst
nauðulega á fætur og sneri þegar undan. Þá mætti Þorgeir Þorvaldi
Þrum-Ketilssyni og hjó þegar til hans með öxinni Rimmugýgi er átt hafði
Skarphéðinn. Þorvaldur kom fyrir sig skildinum. Þorgeir hjó í skjöldinn og
klauf allan en hyrnan sú hin fremri rann í brjóstið og gekk á hol og féll
Þorvaldur þegar og var dauður.
Nú er að segja frá því að Ásgrímur Elliða-Grímsson og Þórhallur son hans,
Hjalti Skeggjason og Gissur hvíti sóttu að þar sem fyrir var Flosi og
Sigfússynir og aðrir brennumenn. Var þar allharður bardagi og laukst með því
að þeir Ásgrímur gengu að svo fast að þeir Flosi hrukku undan.
Guðmundur hinn ríki og Mörður Valgarðsson og Kári Sölmundarson og Þorgeir
skorargeir sóttu þar að er fyrir voru Öxfirðingar og Austfirðingar og
Reykdælir. Var þar allharður bardagi.
Kári Sölmundarson kom að þar er fyrir var Bjarni Brodd-Helgason. Kári þreif
upp spjót og lagði til hans og kom í skjöldinn. Bjarni skaut hjá sér
skildinum ella hefði spjótið staðið í gegnum hann.