Síðan lét hann dæma vörnina. Þeir Ásgrímur létu sækja um brennumálin og
gengu þau fram.
144. kafli
Nú sendu þeir Ásgrímur mann til Þórhalls og létu segja honum í hvert óefni
komið var.
"Of fjarri var eg þó nú," kvað Þórhallur, "því að enn mundi þetta mál eigi
þann veg farið hafa ef eg hefði við verið. Sé eg nú aðferð þeirra að þeir
munu ætla að stefna yður í fimmtardóm fyrir þingsafglöpun. Þeir munu og ætla
að vefengja brennumálin og láta eigi dæma mega því að nú er sú aðför þeirra
að þeir munu engis ills svífast. Skalt þú nú ganga til þeirra sem skjótast
og segja þeim að Mörður stefni þeim báðum, Flosa og Eyjólfi, um það er þeir
hafa fé borið í dóminn og láta varða fjörbaugsgarð. Þá skal hann stefna þeim
annarri stefnu um það er þeir báru vætti þau er eigi áttu máli að skipta með
þeim og gerðu í því þingsafglöpun. Seg þeim að eg segi svo ef tvær
fjörbaugssakar eru á hendi einum manni að þann skal dæma skógarmann. Skuluð
þér af því búa fyrri til yðvart mál að þá skuluð þér og fyrri sækja og
dæma."
Nú fór sendimaðurinn í braut og sagði þeim Merði og Ásgrími. Síðan gengu
þeir til Lögbergs.
Mörður Valgarðsson nefndi sér votta "nefni eg í það vætti," sagði hann, "að
eg stefni Flosa Þórðarsyni um það er hann gaf fé til liðs sér hér á þinginu
Eyjólfi Bölverkssyni. Tel eg hann eiga að verða um sök þá mann sekan,
fjörbaugsmann, því aðeins ferjanda né festum helganda nema fjörbaugur eða
aðalfestur komi fram að féránsdómi, en alsekan skógarmann ellegar. Tel eg
sekt fé hans allt, hálft mér en hálft fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eiga
að taka eftir hann að lögum. Stefni eg máli þessu til fimmtardóms sem málið
á í að koma að lögum. Stefni eg nú til sóknar og til sektar fullrar. Stefni
eg lögstefnu. Stefni eg í heyranda hljóði að Lögbergi."