Eyjólfur Bölverksson spurði nú Sigfússonu að um aðra búa þá er kvaddir voru.
Þeir kváðu vera þá fjóra er rangkvaddir voru "því að þeir sitja heima er
nærri voru."

Eyjólfur nefnir sér þá votta að hann ryður þá alla fjóra menn úr kviðinum og
mælti réttum ruðningarmálum.

Síðan mælti hann til búanna: "Þér eruð skyldir til að gera hvorumtveggjum
lög. Nú skuluð þér ganga að dómi þá er þér eruð kvaddir og nefna yður votta
að þér látið það standa fyrir kviðburði yðrum að þér eruð fimm beiddir
búakviðar en þér eigið níu að bera. Mun Þórhallur þá öllum málum fram koma
ef hann bergur þessu við."

Fannst það nú á í öllu að þeir Flosi og Eyjólfur hældust.

Gerðist nú rómur mikill að því að eytt væri vígsmálinu og nú væri vörn
framar en sókn.

Ásgrímur mælti til Marðar: "Eigi vita þeir enn hverju þeir hælast fyrr en
Þórhallur er fundinn son minn. Sagði Njáll mér svo að hann hefði svo kennt
Þórhalli lög að hann mundi mestur lögmaður vera á Íslandi þó að reyna
þyrfti."

Var þá maður sendur til Þórhalls að segja honum hvar þá var komið og hól
þeirra Flosa og orðróm alþýðu að þá væri eytt vígsmálinu fyrir þeim Merði.

"Vel er það," segir Þórhallur, "en enga fá þeir enn virðing af þessu. Skalt
þú nú fara og segja Merði að hann nefni votta og vinni eið að því að meiri
hlutur er rétt kvaddur. Skal hann þá láta koma vættið í dóm og bergur hann
þá frumsökinni en sekur er hann þrem mörkum fyrir hvern þann er hann hefir
rangt kvatt og má það ekki sækja á þessu þingi."

Sendimaður fór nú aftur og sagði þeim Merði allt sem gerst frá orðum
Þórhalls.


Fred and Grace Hatton
Hawley Pa