Snorri mælti: "Gera skal eg þér vináttubragð það er yður sæmd skal öll við
liggja. En ekki mun eg til dóma ganga. En ef þér berjist á þingi þá ráðið
þér því aðeins á þá nema þér séuð allir sem öruggastir því að miklir kappar
eru til móts. En ef þér verðið forviða munuð þér láta slá hingað til móts
við oss því að eg mun þá hafa fylkt liði mínu hér fyrir og vera við búinn að
veita yður. En ef hinn veg fer að þeir hrökkvi fyrir þá er það ætlan mín að
þeir muni ætla að renna til vígis í Almannagjá en ef þeir komast þangað þá
fáið þér þá aldrei sótta. Mun eg það á hendur takast að fylkja þar fyrir
liði mínu og verja þeim vígið en ekki munum vér eftir ganga hvort sem þeir
hörfa með ánni norður eða suður. Og þá er þér hafið vegið í lið þeirra svo
nokkuð mjög að mér þyki þér mega halda upp fébótum svo að þér haldið
goðorðum yðrum og héraðsvistum mun eg til hlaupa með menn mína alla og
skilja yður. Skuluð þér þá gera það fyrir mín orð að hætta bardaganum ef eg
geri þetta sem nú hefi eg heitið."

Gissur þakkaði honum vel og kvað þetta í allra þeirra nauðsyn mælt vera.
Gengu þeir þá út allir.

Gissur mælti: "Hvert skulum vér nú ganga?"

"Til Möðruvellingabúðar," sagði Ásgrímur.

Fóru þeir þá þangað.


140. kafli

Og er þeir komu í búðina þá sáu þeir hvar Guðmundur hinn ríki sat og talaði
við Einar Konalsson fóstra sinn. Hann var vitur maður. Gengu þeir þá fyrir
Guðmund. Hann tók þeim vel og lét ryðja fyrir þeim búðina að þeir skyldu
allir sitja mega. Spurðust þeir þá tíðinda.

Ásgrímur mælti: "Ekki þarf þetta á mutur að mæla. Til þess erum vér hér
komnir að biðja þig öruggrar liðveislu."

Guðmundur svarar: "Hvort hafið þér nokkura höfðingja fundið áður?"

Þeir svöruðu að þeir höfðu fundið Skafta Þóroddsson og Snorra goða og sögðu
honum allt af hljóði hversu hvorum þeirra fór.
Fred and Grace Hatton
Hawley Pa