Hallbjörn hinn sterki þreif til hans og setti hann niður hjá sér í millum
þeirra Bjarna og mælti: "Eigi fellur tré við hið fyrsta högg, vinur, og sit
hér fyrst hjá oss."

Flosi dró þá gullhring af hendi sér og mælti: "Þenna hring vil eg gefa þér
Eyjólfur til vináttu og liðveislu og sýna þér svo að eg vil eigi ginna þig.
Er þér fyrir því best að þiggja hringinn að engi er hér sá á þingi að eg
hafi þvílíka gjöf gefið."

Hringurinn var svo góður og mikill og vel ger að hann tók tólf hundruð
mórend. Hallbjörn dró á hönd Eyjólfi hringinn.

Eyjólfur mælti: "Það er nú líkara að eg þiggi hringinn svo vel sem þér fer.
Munt þú og til þess ætla mega að eg mun taka við vörn og gera að slíkt er
þarf."

Bjarni mælti: "Nú fer hvorumtveggja ykkrum vel. Eru menn hér nú vel til
fallnir að vera vottarnir, þar sem við Hallbjörn erum, að þú takir við
málinu.

Stóð þá Eyjólfur upp og svo Flosi og tókust í hendur. Tók Eyjólfur þá
varnargögn öll af Flosa og svo ef sakar nokkurar gerðust af vörninni því að
það er oft annars máls vörn er annars er sókn. Þá tók hann þau öll
sóknargögn er þessum sökum áttu að fylgja hvort sem sækja skyldi í
fjórðungsdóm eða fimmtardóm. Flosi seldi að lögum en Eyjólfur tók að lögum.

Hann mælti þá til Flosa og Bjarna: "Nú hefi eg hér tekið við máli sem þér
beidduð. Nú vil eg þó að þér leynið þessu fyrst. En ef málið kemur í
fimmtardóm þá skuluð þér það mest varast að segja að þér hafið fé gefið til
liðveislunnar."

Flosi stóð þá upp og svo Bjarni og allir þeir. Gengu þeir Flosi og Bjarni
hvor til sinnar búðar en Eyjólfur gekk til búðar Snorra goða og settist
niður hjá honum. Þeir töluðust við margt. Snorri goði þreif til handarinnar
Eyjólfi og fletti upp af erminni og sér að hann hafði gullhring mikinn á
hendi.

Snorri goði mælti: "Hvort er þessi hringur keyptur eða gefinn?"

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa