Eftir það var búin ferð þeirra og riðu þeir síðan til þings og tjölduðu
búðir og bjuggust vel um.


136. kafli

Flosi reið austan og þeir tíu tigir manna er að brennu höfðu verið með
honum. Þeir riðu þar til er þeir komu til Fljótshlíðar. Skipuðu þá
Sigfússynir til búa sinna og dvöldust þar um daginn en um kveldið riðu þeir
vestur yfir Þjórsá og sváfu þar um nóttina. En um morguninn snemma tóku þeir
hesta sína og riðu fram á leið.

Flosi mælti til manna sinna: "Nú munum vér ríða í Tungu til Ásgríms
Elliða-Grímssonar til dagverðar og troða illsakar við hann."

Þeir kváðu það vel gert. Þeir ríða nú þar til er þeir eiga skammt í Tungu.

Ásgrímur stóð úti og nokkurir menn með honum. Þeir sjá þegar flokkinn er
mátti heiman.

Menn Ásgríms mæltu: "Þar mun vera Þorgeir skorargeir."

Ásgrímur mælti: "Ekki in heldur ætla eg það því að þessir menn fara með
hlátri og gapi en frændur Njáls, slíkir sem Þorgeir er, munu eigi hlægja
fyrr en nokkuð er hefnt brennunnar. Og mun eg geta annars til og má vera að
yður þyki það ólíklegt. Það er ætlun mín að vera muni Flosi og brennumenn
með honum og munu þeir ætla að troða illsakar við oss og skulum vér nú inn
ganga allir."

Þeir gera nú svo. Ásgrímur lét sópa hús og tjalda og setja borð og bera mat
á. Hann lét setja forsæti með endilöngum bekkjum um alla stofuna.

Flosi reið í túnið og bað menn stíga af hestum og ganga inn. Þeir gerðu svo.
Þeir Flosi komu í stofuna. Ásgrímur sat á palli. Flosi leit á bekkina og sá
að allt var reiðubúið það er menn þurftu að hafa.

Ásgrímur kvaddi þá ekki en mælti til Flosa: "Því eru borð sett að heimull er
matur þeim er hafa þurfa."

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa