Hildigunnur gekk þá fram í skálann og lauk upp kistu sína. Tók hún þá upp
skikkjuna þá er Flosi hafði gefið Höskuldi. Í þeirri skikkju hafði Höskuldur
veginn verið og hafði hún þar varðveitt í blóðið allt. Hún gekk þá innar í
stofuna með skikkjuna. Hún gekk þegjandi að Flosa. Þá var Flosi mettur og af
borið af borðinu. Hildigunnur lagði yfir Flosa skikkjuna. Dundi þá blóðið um
hann allan.
Hún mælti þá: "Þessa skikkju gafst þú, Flosi, Höskuldi og vil eg nú gefa þér
aftur. Var hann í þessi veginn. Skýt eg því til guðs og góðra manna að eg
særi þig fyrir alla krafta Krists þíns og fyrir manndóm og karlmennsku þína
að þú hefnir þeirra allra sára sem Höskuldur hafði á sér dauðum eða heit
hvers manns níðingur ella."
Flosi kastaði af sér skikkjunni og rak í fang henni og mælti: "Þú ert hið
mesta forað og vildir að vér tækjum það upp er öllum oss gegnir verst og eru
köld kvenna ráð."
Flosa brá svo við að hann var í andliti stundum rauður sem blóð en stundum
fölur sem gras en stundum blár sem hel.
Þeir Flosi fóru til hesta sinna og riðu í braut. Hann reið til Holtsvaðs og
bíður þar Sigfússona og annarra vina sinna.
Ingjaldur bjó að Keldum, bróðir Hróðnýjar móður Höskulds Njálssonar. Þau
voru börn Höskulds hins hvíta Ingjaldssonar hins sterka Geirfinnssonar hins
rauða Sölvasonar Gunnsteinssonar berserkjabana. Ingjaldur átti Þraslaugu
dóttur Egils Þórðarsonar Freysgoða. Móðir Egils var Þraslaug dóttir
Þorsteins tittlings. Móðir Þraslaugar var Unnur dóttir Eyvindar karfa,
systir Móðólfs hins spaka.