Þá mælti Bjarni: "Óviturleg mun þykja vor ferð þar sem engi vor hefir komið
í Grænlandshaf."
En þó halda þeir nú í haf þegar þeir voru búnir og sigldu þrjá daga þar til
er landið var vatnað en þá tók af byrina og lagði á norrænur og þokur og
vissu þeir eigi hvert að þeir fóru og skipti það mörgum dægrum.
Eftir það sáu þeir sól og máttu þá deila áttir, vinda nú segl og sigla þetta
dægur áður þeir sáu land og ræddu um með sér hvað landi þetta mun vera en
Bjarni kveðst hyggja að það mundi eigi Grænland.
Þeir spyrja hvort hann vill sigla að þessu landi eða eigi.
"Það er mitt ráð að sigla í nánd við landið."
Og svo gera þeir og sáu það brátt að landið var ófjöllótt og skógi vaxið og
smár hæðir á landinu og létu landið á bakborða og létu skaut horfa á land.
Síðan sigla þeir tvö dægur áður þeir sáu land annað.
Þeir spyrja hvort Bjarni ætlaði það enn Grænland.
Hann kvaðst eigi heldur ætla þetta Grænland en hið fyrra "því að jöklar eru
mjög miklir sagðir á Grænlandi"
Þeir nálguðust brátt þetta land og sáu það vera slétt land og viði vaxið. Þá
tók af byr fyrir þeim. Þá ræddu hásetar það að þeim þótti það ráð að taka
það land en Bjarni vill það eigi. Þeir þóttust bæði þurfa við og vatn.
"Að öngu eruð þér því óbirgir" segir Bjarni en þó fékk hann af því nokkuð
ámæli af hásetum sínum.
Hann bað þá vinda segl og svo var gert og settu framstafn frá landi og sigla
í haf útsynningsbyr þrjú dægur og sáu þá landið þriðja. En það land var hátt
og fjöllótt og jökull á.