En er hann hafði þetta mælt þá mæltu þeir fyrst í mót. En þar kom að þeir
trúðu og gerðust þá í fáleikar af þeirra hendi til Höskulds og mæltu nær
ekki við hann hvar sem þeir fundust. En Höskuldur gaf þeim lítið tillæti og
fór svo fram um hríð.

Höskuldur fór austur til Svínafells um haustið að heimboði og tók Flosi vel
við honum. Hildigunnur var þar og.

Flosi mælti til Höskulds: "Það segir Hildigunnur mér að fáleikar séu miklir
með yður Njálssonum og þykir mér það illa. Og vil eg bjóða þér að þú ríðir
eigi vestur og mun eg fá þér bústað í Skaftafelli en eg mun senda Þorgeir
bróður minn að búa í Ossabæ."

"Það munu þá sumir menn mæla," segir Höskuldur, "að eg flýi þaðan fyrir
hræðslu sakir og vil eg það eigi."

"Þá er það líkara," segir Flosi, "að stórvandræði leiði af."

"Illa er það," segir Höskuldur, "því að heldur vildi eg vera ógildur en
margir hlytu illt af mér."

Höskuldur bjóst heim fám nóttum síðar en Flosi gaf honum skarlatsskykkju og
var hlaðbúin í skaut niður. Reið Höskuldur heim í Ossabæ. Er nú kyrrt um
hríð.

Höskuldur var maður svo vinsæll að fáir voru hans óvinir. En hin sama er
óþykkt með þeim allan veturinn.

Njáll hafði tekið til fósturs son Kára er Þórður hét. Hann hafði og fóstrað
Þórhall son Ásgríms Elliða-Grímssonar. Þórhallur var röskur maður og harðger
í öllu. Hann hafði numið svo lög að Njáli að hann var hinn þriðji mestur
lögmaður á Íslandi.

Nú vorar snemma um vorið og færðu menn snemma niður sæði sín.