Mörður svarar: "Hér eru tekin upp ný goðorð og fimmtardómslög og hafa menn
sagt sig úr þingi frá mér og í þing með Höskuldi."
Valgarður mælti: Illa hefir þú launað mér goðorðið er eg fékk þér í hendur
að fara svo ómannlega með. Vil eg nú að þú launir þeim því að þeim dragi
öllum til bana. En það er til þess að þú rægir þá saman og drepi synir Njáls
Höskuld. En þar eru margir til eftirmáls um hann og munu þá Njálssynir af
þeim sökum drepnir verða."
"Eigi mun eg það gert geta," segir Mörður.
"Eg skal leggja ráðin til," segir Valgarður. "Þú skalt bjóða Njálssonum heim
og leysa þá út með gjöfum. En svo fremi skalt þú rógið frammi hafa er orðin
er vinátta með yður mikil og þeir trúa þér eigi verr en sér. Máttu svo
hefnast við Skarphéðin þess er hann tók féið af þér eftir lát Gunnars. Munt
þú svo fremi taka höfðingskap er þessir eru allir dauðir."
Þessa ráðagerð festu þeir með sér að sjá skyldi fram koma.
Mörður mælti: "Það vildi eg faðir að þú tækir við trú. Þú ert maður gamall."
"Eigi vil eg það," segir Valgarður, "heldur vil eg að þú kastir trúnni og
sjá hversu þá fari."
Mörður kvaðst það eigi gera mundu.
Valgarður braut krossa fyrir Merði og öll heilög tákn. Litlu síðar tók
Valgarður sótt og andaðist og var hann heygður.
108. kafli
Nokkuru síðar reið Mörður til Bergþórshvols og fann þá Skarphéðinn. Hann sló
á mikið fagurmæli við þá og talaði hann dag allan og kveðst við þá margt
vilja eiga. Skarphéðinn tók því öllu vel en kvað hann ekki þess leitað hafa
fyrr.
Svo gerðist að hann kom sér í svo mikla vináttu við þá að hvorigum þótti ráð
ráðið nema við aðra réðust um. Njáli þótti ávallt illt er Mörður kom þangað
og fór svo jafnan að hann amaðist við.