Þá kvaddi Njáll sér hljóðs og mælti: "Það er mörgum mönnum kunnigt hversu
farið hefir með oss sonum mínum og Grjótármönnum að þeir drápu Þráin
Sigfússon en var sæst á málið og eg tók við Höskuldi syni Þráins. Hefi eg nú
ráðið honum kvonfang ef hann fær goðorð nokkuð en engi vill selja sitt
goðorð. Vil eg nú biðja yður að þér leyfið að eg taki upp nýtt goðorð á
Hvítanesi til handa Höskuldi."

Hann fékk það lof af öllum. Tekur Njáll nú upp goðorðið til handa Höskuldi
og var hann síðan kallaður Höskuldur Hvítanesgoði.

Eftir þetta ríða menn heim af þingi.

Njáll dvaldist skamma stund heima áður hann reið austur til Svínafells og
synir hans og Höskuldur og vekur bónorðið við Flosa en hann kveðst efna
mundu öll mál við þá. Var þá Hildigunnur föstnuð Höskuldi og kveðið á
brúðlaupsstefnu og lýkur svo með þeim. Ríða þeir þá heim.

En í annað sinn riðu þeir til brúðlaups. Leysti Flosi út allt fé Hildigunnar
eftir boðið og greiddi vel af hendi. Fóru þau til Bergþórshvols og voru þar
þau misseri og fór allt vel með þeim Hildigunni og Bergþóru. Um vorið eftir
keypti Njáll land í Ossabæ og fær það Höskuldi og fer hann þangað byggðum
sínum. Njáll réð honum hjón öll. Og svo var dátt með þeim öllum saman að
engum þótti ráð ráðið nema þeir réðu allir um. Bjó Höskuldur í Ossabæ lengi
svo að hvorir studdu annarra sæmd og voru synir Njáls í ferðum með Höskuldi.
Svo var ákaft um vináttu þeirra að hvorir buðu öðrum heim hvert haust og
gáfu stórgjafar. Fer svo lengi fram.


98. kafli

Maður hét Lýtingur. Hann bjó á Sámsstöðum. Hann átti þá konu er Steinvör
hét. Hún var Sigfúsdóttir, systir Þráins. Lýtingur var mikill maður vexti og
styrkur og auðigur að fé, illur viðureignar.

Fred and Grace Hatton
Hawley Pa