Hrappur sneri þá til móts við Þráin Sigfússon og bað hann ásjá.
"Hvað er þér á höndum?" segir Þráinn.
Hrappur mælti: "Brennt hefi eg goðahús fyrir jarli og drepið menn nokkura og
mun hann hér kona brátt því að hann er sjálfur í eftirleitinni."
"Varla samir mér það," segir Þráinn, "svo mikið gott sem jarl hefir mér
gert."
Þá sýndi Hrappur Þráni gripina þá er hann hafði borið úr goðahúsinu og bauð
að gefa honum féið. Þráinn sagði að hann mundi eigi þiggja nema annað fé
kæmi í mót.
Hrappur mælti: "Hér mun eg stað nema og skal mig hér drepa fyrir augum þér
og munt þú þá bíða af hvers manns ámæli."
Þá sjá þeir ferð jarls og manna hans. Þá tók Þráinn við Hrappi en lét skjóta
báti og fluttist út á skipið.
Þráinn mælti: "Nú er þetta fylgsni helst að brjóta botn úr tunnum tveim og
skalt þú þar fara í."
Svo var gert að hann fór í tunnurnar og voru bundnar saman síðan og látnar
fyrir borð.
Þá kemur jarl með liði sínu til Njálssona og spurði ef Hrappur hefði komið
þar. Þeir sögðu að hann kom. Jarl spurði hvert hann færi þaðan. Þeir kváðust
eigi reiður hafa á hent.
Jarl mælti: "Sá skyldi mikla sæmd af mér hafa er mér segði til Hrapps."
Grímur mælti hljótt við Helga: "Fyrir hví skulum við eigi segja? Eg veit
eigi nema Þráinn launi okkur engu góðu."
"Eigi skulum við segja að heldur," segir Helgi, "þar er líf hans liggur
við."
Grímur mælti: "Vera kann að jarl snúi á okkur hefndinni því að hann er svo
reiður að niður mun nokkur verða að koma."
"Ekki munum við að því fara," segir Helgi, "en þó skulum við nú í braut
leggja skipinu og í haf þegar er gefur."
"Skulum við nú ekki bíða Kára?" segir Grímur.
"Ekki mun eg um það hirða nú," segir Helgi.
Þeir leggja út undir eyna og bíða þar byrjar.
Jarl gekk að skipamönnum og leitaði við alla þá en allir duldu að né eitt
vissu til Hrapps.
Þá mælti jarl: "Nú munum vér fara að finna Þráin félaga minn og mun hann
selja fram manninn ef hann veit nokkuð til."