Um vorið beiddust þeir Njálssynir að fara til Noregs. Jarl mælti að þeir
skyldu fara sem þeim líkaði og fékk þeim gott skip og röskva menn. Kári
sagði þeim að hann mundi þetta sumar koma til Noregs með skatta Hákonar
jarls og "munum vér þá þar finnast," segir Kári. Og á það sammæltust þeir að
finnast þar.

Síðan létu þeir Njálssynir út og sigldu til Noregs og komu norður við
Þrándheim. Dvöldust þeir þar.


87. kafli

Kolbeinn hét maður og var kallaður Arnljótarson. Hann var þrænskur maður.
Hann sigldi það sumar út til Íslands er Þráinn og Njálssynir fóru utan. Hann
var þann vetur í Breiðdal austur. En um sumarið eftir bjó hann skip sitt í
Gautavík. Og þá er þeir voru mjög búnir reri að þeim maður á báti og festi
bátinn við skipið en gekk síðan upp á skipið til fundar við Kolbein.
Kolbeinn spurði þenna mann að nafni.

"Hrappur heiti eg," segir hann.

"Hvers son ert þú?" segir Kolbeinn.

Hrappur svarar: "Eg er son Örgumleiða Geirólfssonar gerpis."

"Hvað vilt þú mér?" segir Kolbeinn.

"Eg vil biðja þig," segir Hrappur, "að þú flytjir mig um haf."

Kolbeinn spyr: "Hver nauðsyn er þér á?"

"Eg hefi vegið víg eitt," segir Hrappur.

"Hvert víg er það," segir Kolbeinn, "eða hverjir eru til eftirmáls?"

Hrappur svarar: "Eg hefi vegið Örlyg Ölvisson Hróðgeirssonar hins hvíta en
til eftirmáls eru Vopnfirðingar."

"Þess get eg að sá hafi verr er þig flytur," segir Kolbeinn.

Hrappur mælti: "Vinur er eg vinar míns en geld eg það er illa er til mín
gert enda skortir mig eigi fé til að leggja fyrir farið."

Síðan tók Kolbeinn við Hrappi.

Litlu síðar gaf byr og sigla þeir í haf. Hrapp þraut vistir í hafi. Settist
hann þá að með þeim er næstir voru. Þeir spruttu upp með illyrðum og svo kom
að þeir ráðast á og hefir Hrappur þá þegar undir tvo menn. Þá var sagt
Kolbeini og bauð hann Hrappi í mötuneyti sitt og hann þá það.