Síðan tók Eiríkur son hans til orða: "Við marga hafið þér heit góð en
misjafnt þykir út seljast. Er þetta hin torveldlegasta för því að víkingur
sjá er harður og illur viðureignar. Munt þú þurfa að vanda til ferðar þessar
bæði skip og menn."
Þráinn mælti: "Þó skal nú fara að ferðin sé eigi rífleg."
Síðan fékk jarl honum fimm sip og öll vel skipuð. Með Þráni var Gunnar
Lambason og Lambi Sigurðarson. Gunnar var bróðurson Þráins og hafði komið
til hans ungur og unni hvor öðrum mikið. Eiríkur jarlsson gekk til með þeim
og hugði að mönnum og vopnaafla og skipti þar um er honum þótti þurfa. Síðan
er þeir voru búnir fékk Eiríkur þeim leiðsögumann.
Sigldu þeir þá suður með landi. En hvar sem þeir kæmu við þá heimilaði jarl
þeim slíkt er þeir þyrftu að hafa. Þeir héldu austur til Ljóðhúsa. Þar
spurðu þeir að Kolur var farinn suður til Danmerkur. Héldu þeir þá suður
þangað. En er þeir komu suður til Helsingjaborgar fundu þeir þar menn á báti
og sögðu þeir að þar var Kolur fyrir og mundi þar dveljast um hríð.
Veðurdagur var góður. Þá sá Kolur skipin er að fóru og kvað sig dreymt hafa
Hákon jarl um nóttina og kvað þetta vera mundu menn hans og bað alla menn
sína taka vopn sín. Síðan bjuggust þeir við og tekst þar orusta. Berjast
þeir lengi svo að eigi verða umskipti. Kolur hljóp þá upp á skip Þráins og
ruddist um fast og drepur margan mann. Hann hafði gylltan hjálm. Nú sér
Þráinn að eigi mun duga, eggjar nú mennina með sér en hann gengur sjálfur
fyrstur og mætir Kol. Kolur höggur til hans og kom í skjöldinn Þráins og
klauf ofan skjöldinn. Þá fékk Kolur steinshögg á höndina. Féll þá niður
sverðið. Þráinn hjó til Kols og kom á fótinn svo að af tók. Eftir það drápu
þeir Kol. Hjó Þráinn höfuð af honum en steypti búkinum fyrir borð en
varðveitti höfuðið.