"Þá skal eg nú," segir hún, "muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort
þú verð þig lengur eða skemur."
"Hefir hver til síns ágætis nokkuð," segir Gunnar, "og skal þig þessa eigi
lengi biðja."
Rannveig mælti: "Illa fer þér og mun þín skömm lengi uppi."
Gunnar varði sig vel og fræknlega og særir nú aðra átta menn svo stórum
sárum að mörgum lá við bana. Gunnar ver sig þar til er hann féll af mæði.
Þeir særðu hann þá mörgum stórum sárum en þó komst hann úr höndum þeim og
varði sig þá enn lengi en þó kom þar að þeir drápu hann.
Um vörn hans orti Þorkell Elfaraskáld í vísu þessi:
Spurðum vér hve varðist
vígmóðr kjalar slóða
glaðstýrandi geiri,
Gunnar, fyrir Kjöl sunnan.
Sóknrýrir vann sára
sextán viðar mána
hríðar herðimeiða
hauðrmens en tvo dauða.
Gissur mælti: "Mikinn öldung höfum vér nú að velli lagt og hefir oss erfitt
veitt og mun hans vörn uppi meðan landið er byggt."
Síðan gekk hann til fundar við Rannveigu og mælti: "Vilt þú veita mönnum
vorum tveimur jörð er dauðir eru og séu hér heygðir?"
"Að heldur tveimur," segir hún, "að eg mundi veita yður öllum."
"Vorkunn er þér til þess er þú mælir," segir hann, "því að þú hefir mikils
misst" og kvað á að þar skyldi engu ræna og engu spilla. Fóru á braut síðan.