Tóku þeir þau á skip sitt og fóru leiðar sinnar þar til er varð
fjarðskorið. Þeir lögðu skipunum inn á fjörðinn. Þar var ey ein út
fyrir og voru þar straumar miklir og um eyna. Þeir kölluð hana
Straumsey. Fugl var þar svo margur að trautt mátti fæti niður koma í
milli eggjanna.

Þeir héldu inn með firðinum og kölluðu hann Straumsfjörð og báru
farminn af skipunum og bjuggust þar um. Þeir höfðu með sér alls konar
fé og leituðu sér þar landsnytja. Fjöll voru þar og fagurt var þar um
að litast. Þeir gáðu einskis nema að kanna landið. Þar voru grös
mikil.

Þar voru þeir um veturinn og gerðist vetur mikill en ekki fyrir unnið
og gerðist illt til matarins og tókust af veiðarnar. Þá fóru þeir út
í eyna og væntu að þar mundi gefa nokkuð af veiðum eða rekum. Þar var
þó lítið til matfanga en fé þeirra varð þar vel. Síðan hétu þeir á
guð að hann sendi þeim nokkuð til matfanga og var eigi svo brátt við
látið sem þeim var annt til.

Þórhallur hvarf á brott og gengu menn að leita hans. Stóð það yfir
þrjú dægur í samt. Á hinu fjórða dægri fundu þeir Karlsefni og Bjarni
hann Þórhall á hamargnípu einni. Hann horfði í loft upp og gapti
hann, bæði augum og munni og nösum, og klóraði sér og klípti sig og
þuldi nokkuð. Þeir spurðu hví hann væri þar kominn. Hann kvað það
öngu skipta. Bað hann þá ekki það undrast, kveðst svo lengst lifað
hafa að þeir þurftu eigi ráð fyrir honum að gera. Þeir báðu hann fara
heim með sér. Hann gerði svo.

Litlu síðar kom þar hvalur og drifu menn til og skáru hann en þó
kenndu menn eigi hvað hval það var. Karlsefni kunni mikla skyn á
hvalnum og kenndi hann þó eigi. Þenna hval suðu matsveinar og átu af
og varð þó öllum illt af.

Þá gengur Þórhallur að og mælti: "Var eigi svo að hinn rauðskeggjaði
varð drjúgari enn Kristur yðvar? Þetta hafði eg nú fyrir skáldskap
minn er eg orti um Þór fulltrúann. Sjaldan hefir hann mér brugðist."

Og er menn vissu þetta vildu öngvir nýta og köstuðu fyrir björg ofan
og sneru sínu máli til guðs miskunnar. Gaf þeim þá út að róa og
skorti þá eigi birgðir.

Um vorið fara þeir inn í Straumsfjörð og höfðu föng af hvorutveggja
landinu, veiðar af meginlandinu, eggver og útróðra af sjónum.