Maður hét Ormur er bjó að Arnarstapa. Hann átti konu þá er Halldís hét. Ormur var góður bóndi og vinur Þorbjarnar mikill. Var Guðríður þar löngum að fóstri með honum.

Maður hét Þorgeir er bjó að Þorgeirsfelli. Hann var vellauðigur að fé og hafði verið leysingi. Hann átti son er Einar hét. Hann var vænn maður og vel mannaður og skartsmaður mikill. Einar var í siglingu landa í milli og tókst honum það vel. Var hann jafnan sinn vetur hvort á Íslandi eða í Noregi.

Nú er frá því að segja eitt haust er Einar var út hér að hann fór með varning sinn út eftir Snæfellsnesi og skyldi selja. Hann kemur til Arnarstapa. Ormur býður honum þar að vera og það þiggur Einar því að þar var vinátta við kjörin. Varningurinn Einars var borinn í eitthvert útibúr. Einar brýtur upp varninginn og sýndi Ormi og heimamönnum og bauð Ormi slíkt af að taka sem hann vildi. Ormur þá þetta og taldi Einar vera góðan fardreng og auðnumann mikinn. En er þeir héldu á varninginum gekk kona fyrir útibúrsdyrin.

Einar spurði Orm hver sú hin fagra kona væri er þar gekk fyrir dyrnar "eg hefi hana eigi hér fyrr séð."

Ormur segir: "Það er Guðríður fóstra mín, dóttir Þorbjarnar bónda frá Laugarbrekku."

Einar mælti: "Hún mun vera góður kostur. Eða hafa nokkurir menn til komið að biðja hennar?"

Ormur svarar: "Beðið hefir hennar víst verið vinur og liggur eigi laust fyrir. Finnur það á að hún mun bæði vera mannvönd og faðir hennar."

"Svo fyrir það," kvað Einar, "að hún er sú kona er eg ætla mér að biðja og vildi eg að þessi mál kæmir þú fyrir mig við föður hennar og legðir á alendu að flytja því að eg skal þér fullkomna vináttu fyrir gjalda. Má Þorbjörn bóndi á líta að okkur væru vel hentar tengdir því hann er sómamaður mikill og á staðfestu góða en lausafé hans er mér sagt að mjög sé á förum. En mig skortir hvorki land né lausafé og okkur feðga og mundi Þorbirni verða að því hinn mesti styrkur ef þessi ráð tækjust."

Ormur svarar: "Víst þykist eg vin þinn vera en þó er eg ekki fús að bera þessi mál upp því að Þorbjörn er skapstór og þó metnaðarmaður mikill."

Einar kveðst ekki vilja annað en upp væri borið bónorðið. Ormur kvað hann ráða skyldu. Einar fór suður aftur uns hann kemur heim.

Nokkuru síðar hafði Þorbjörn haustboð sem hann átti vanda til því að hann var stórmenni mikið. Kom þar Ormur frá Arnarstapa og margir aðrir vinir Þorbjarnar.