Sorry for the delay in posting the translation. There were thunderstorms in
the area so we unplug the computer. Our computer got fried once before when
lightning came in over the telephone modem. Now we have a cable modem which
can't be readily disconnected so I hope the same thing doesn't happen.
Grace
"Nú skalt þú," segir Njáll, "stefna vettvangsbúum og nábúum saman og nefna
votta fyrir búum og kjósa Kol til veganda að vígi Hjartar bróður þíns því að
það er rétt. Síðan skalt þú lýsa víginu á hendur Kol þó að hann sé dauður.
Þá skalt þú nefna þér votta og kveðja búa alþingisreiðar að bera um það
hvort þeir væru í aðvist og aðsókn þá er Hjörtur var veginn. Nú skalt þú og
stefna Þorgeiri um legorðssökina og svo Önundi í Tröllaskógi um sökina
Tyrfings."
Gunnar fór með öllu sem Njáll kenndi ráð til. Þetta þótti mönnum undarlegur
málatilbúnaður. Fara nú þessi mál til þings.
Gunnar reið til þings og Njáll og synir hans og Sigfússynir. Gunnar hafði
sendan mann mágum sínum að þeir skyldu ríða til þings og fjölmenna mjög og
kvað sér þetta mundu vera mjög harðdrægt. Þeir fjölmenntu mjög vestan.
Mörður reið til þings og Runólfur úr Dal og þeir undan Þríhyrningi og
Önundur úr Tröllaskógi.
66. kafli
En er þessir menn komu til þings ganga þeir í lið með Gissuri hvíta og Geir
goða. Gunnar og Sigfússynir og Njálssynir gengu allir í einum flokki og fóru
svo snúðigt að menn urðu að gæta sín ef fyrir voru að eigi féllu. Og var
ekki jafntíðrætt um allt þingið sem um málaferli þessi hin miklu.
Gunnar gekk til móts við mága sína og fögnuðu þeir Ólafur honum vel. Þeir
spurðu Gunnar um fundinn en hann segir þeim frá gjörla og bar öllum vel
söguna og sagði þeim hvað hann hafði síðan að gert.
Ólafur mælti: "Mikils er vert hversu Njáll stendur þér fast um alla
ráðagerð."
Gunnar kvaðst aldrei það mundu launað geta en beiddi þá liðveislu og
atgöngu. Þeir kváðu það skylt vera.
Fara nú málin hvortveggi í dóm. Flytja nú hvorir sitt mál fram. Mörður
spurði hví sá maður skyldi hafa mál fram er áður hafði unnið sér til óhelgi
við Þorgeir svo sem Gunnar var.