"Vilt þú gefa mér þá," segir Gunnar, "og hætta til hverju eg launa þér?"

"Eigi vil eg það," segir Otkell.

Skammkell var tillagaillur.

Þráinn Sigfússon mælti: "Þess væri vert að vér tækjum upp bæði hey og mat og
legðum verð í staðinn."

"Aldauða eru þá Mosfellingar," segir Skammkell, "ef þér Sigfússynir skuluð
ræna þá."

"Með engi rán munum vér fara," segir Gunnar.

"Vilt þú kaupa þræl að mér?" segir Otkell.

"Það spara eg eigi," segir Gunnar.

Síðan keypti Gunnar þrælinn og fór í braut við svo búið.

Þetta spyr Njáll og mælti: "Illa er slíkt gert að varna Gunnari kaups. Er
þar öðrum eigi góðs von er slíkir fá eigi."

Bergþóra húsfreyja mælti: "Hvað skalt þú margt um slíkt tala? Er þér miklu
drengilegra að fá honum bæði mat og hey er þig skortir hvortgi til."

Njáll mælti: "Þetta er dagsanna og skal eg víst birgja hann að nokkuru."

Fór hann þá upp í Þórólfsfell og synir hans og bundu þar hey á fimmtán hesta
en á finn hestum höfðu þeir mat. Njáll kom til Hlíðarenda og kallaði út
Gunnar. Hann fagnar þeim vel.

Njáll mælti: "Hér er hey og matur er eg vil gefa þér. Vil eg að þú leitir
aldrei annarra en mín ef þú þarft nokkurs við."

"Góðar eru gjafar þínar," segir Gunnar, "en meira þykir mér verð vinátta þín
og sona þinna."

Fór Njáll heim síðan. Líður nú vorið.


48. kafli

Gunnar ríður til þings um sumarið en að hans gisti fjölmenni mikið austan af
Síðu. Gunnar bauð að þeir gistu þar er þeir riðu af þingi. Þeir kváðust svo
gera mundu. Ríða nú til þings. Njáll var á þingi og synir hans. Þingið er
kyrrt.

Nú er þar til að taka að Hallgerður kemur að máli við Melkólf þræl:
"Sendiför hefi eg hugað þér," segir hún, "þú skalt fara í Kirkjubæ."

"Og hvað skal eg þangað?" segir hann.

Þú skalt stela þaðan mat á tvo hesta og hafa smjör og ost en þú skalt leggja
eld í útibúrið og munu allir ætla að af vangeymslu hafi orðið en engi mun
ætla að stolið hafi verið."