Nú koma tíðindin til þings og lét Njáll segja sér þrem sinnum og mælti
síðan: "Fleiri gerast nú vígamenn en eg ætlaði."
Skarphéðinn mælti: "Sjá maður hefir þó helst hraðfeigur verið er látist
hefir fyrir fóstra vorum er aldrei hefir séð mannsblóð og mundu það margir
ætla að vér bræður mundum þetta fyrri gert hafa að því skaplyndi sem vér
höfum."
"Skammt munt þú til þess eiga," segir Njáll, "að þig mun slíkt henda og mun
þig þó nauður til reka."
Þeir gengu þá til móts við Gunnar og sögðu honum vígið.
Gunnar sagði að það var lítill mannskaði "en þó var hann frjáls maður."
Njáll bauð honum þegar sættina. Gunnar játti því og skyldi hann sjálfur
dæma. Hann dæmdi þegar og gerði hundrað silfurs. Njáll galt þegar féið og
sættust að því.
41. kafli
Sigmundur hét maður. Hann var Lambason Sighvatssonar hins rauða. Hann var
farmaður mikill, kurteis maður og vænn, mikill og sterkur. Hann var
metnaðarmaður mikill og skáld gott og að flestum íþróttum vel búinn,
hávaðamaður mikill, spottsamur og ódæll. Hann kom út austur í Hornafirði.
Skjöldur hét félagi hans. Hann var sænskur maður og illur viðureignar. Þeir
fengu sér hesta og riðu austan úr Hornafirði og luku eigi ferð sinni fyrr en
þeir komu í Fljótshlíð til Hlíðarenda. Gunnar tók við þeim vel. Var þar
frændsemi mikil með þeim Sigmundi. Gunnar bauð Sigmundi að vera þar um
veturinn. Sigmundur kvaðst það þiggja mundu ef Skjöldur væri þar, félagi
hans.
"Svo er mér frá honum sagt," sagði Gunnar, "að hann sé þér engi skapbætir en
þú þarft hins heldur að bætt sé um með þér. Er hér og vönd vistin. Vildi eg
ráða yður ráð frændum mínum að þér hlypuð eigi upp við frameggjan Hallgerðar
konu minnar því að hún tekur það margt upp er fjarri er mínum vilja."