Nú ríður hún heim af þingi og var Hrútur heim kominn og fagnaði henni vel.
Hún tók vel máli hans og var við hann blíð og eftirmál. Þeirra samfarar voru
góðar þau misseri. En er voraði tók hún sótt og lagðist í rekkju. Hrútur fór
í fjörðu vestur og bað henni virkta áður.

Nú er kemur að þingi bjó hún ferð sína í braut og fór með öllu svo sem fyrir
var sagt og ríður á þing síðan. Héraðsmenn leituðu hennar og fundu hana
eigi.

Mörður tók við dóttur sinni vel og spurði hana hversu hún hefði með farið
ráðagerð hans.

"Hvergi hefi eg af brugðið," sagði hún.

Hann gekk til Lögbergs og sagði skilið lagaskilnaði með þeim að Lögbergi.

Þetta gerðu menn að nýjum tíðindum.

Unnur fór heim með föður sínum og kom aldrei vestur þar síðan.


8. kafli

Hrútur kom heim og brá mjög í brún er kona hans var í brautu og er þó vel
stilltur og var heima öll þau misseri og réðst við engan mann um sitt mál.

Annað sumar eftir reið hann til alþingis og Höskuldur bróðir hans með honum
og fjölmenntu mjög. En er hann kom á þing þá spurði hann hvort Mörður gígja
væri á þingi. Honum var sagt að hann var þar og ætluðu allir að þeir mundu
tala um mál sín en það varð eigi.

Einnhvern dag er menn gengu til Lögbergs nefndi Mörður sér votta og lýsti
fésök á hendur Hrúti um fémál dóttur sinnar og taldi níu tigu hundraða fjár.
Lýsti hann til gjalda og til útgreiðslu og lét varða þriggja marka útlegð.
Hann lýsti í fjórðungsdóm þann er sökin átti í að koma að lögum. Lýsti hann
löglýsing og í heyranda hljóði að Lögbergi.

En er hann hafði þetta mælt svaraði Hrútur: "Meir sækir þú þetta mál með
fjárágirnd og kapppi er heyrir til dóttur þinnar heldur en með góðvild eða
drengskap enda mun eg hér láta nokkuð í mót koma því að þú hefir enn eigi
féið í hendi þér það er eg fer með. Mæli eg svo fyrir að þeir séu allir
heyrandi vottar er hjá eru að Lögbergi að eg skora þér á hólm. Skal við
liggja mundurinn allur og þar legg eg í mót annað fé jafnmikið og eigi sá
hvorttveggja féið er af öðrum ber. En ef þú vilt eigi berjast við mig þá
skalt þú af allri fjárheimtunni."