Tóku húsin skjótt að brenna og er fallin voru flest húsin og menn gengu út, þeir er grið voru gefin, sáu þeir Þórir að svín tvö hlupu eins vegar frá húsunum, gyltur og grís. 



Þórir þreif einn raft úr eldinum og skaut logbrandinum á lær galtanum og brotnuðu báðir lærleggirnir og féll hann þegar. 



En er Þórir kom að sá hann að þar var Askmaður. 



Gekk Þórir af honum dauðum en gylturin hljóp í skóg og var það Katla.



Hún kom til Uppsala og sagði Þorbirni tíðindin en hann fór þegar á fund Halls og segir honum. 



Þeir Þórir tóku fé allt það er Askmaður hafði átt og fluttu heim með sér á Þórisstaði. 



En er Þorbjörn kom á ...



(Hér er eyða í handriti sem svarar til tveggja kafla, hefst í 10. kafla og nær fram í þann 12. 



Hér er prentuð eyðufylling frá 19. öld.)


... Hofstaði safnaði Hallur mönnum og fór til móts við þá Þóri. 



Varð þeirra fundur fyrir neðan Rauðsdal. 



Hallur hjó með sverði til Þorsteins Kinnarsonar. 



Kom það högg á fótinn og reist ofan kálfann. 



Þar féllu þrír menn af Halli. 



Eftir það sneru þeir Hallur undan en þeir Þórir eltu þá um stund og hurfu síðan aftur og héldu heimleiðis.



11. kafli


Það verður þessu næst til tíðinda að vor eitt á einmánuði rak hval í ey þeirri er Hvallátur heitir. 



Það var þá eyðiey og átti Gull-Þórir eyna. 



Þórir fór til og skar hvalinn, flutti suman heim en gaf héraðsmönnum sínum suman. 



Mikið lá þar enn eftir óskorið hvalsins.



Þetta fréttir Steinólfur í Fagradal. 



Fer hann þá til og mannar út áttæring. 



Og er þeir komu í eyna voru þar fyrir nokkurir Reyknesingar að hvalskurðinum. 



Steinólfur og hans félagar létu ófriðlega og þorðu hinir er að hvalskurðinum voru eigi að verja þeim hvalinn og hopuðu undan. 



Báru þeir Steinólfur þá hvalinn til skips og hlóðu og lögðu síðan brott frá eynni. 



Vindur var á sunnan og fór heldur vaxandi.