Hallsteinn son Þórólfs Mostrarskeggja nam allan Þorskafjörð fyrir vestan og bjó á Hallsteinsnesi. Hann átti Ósku dóttur Þorsteins rauðs. Börn þeirra voru þau Þorsteinn surtur, Þórarinn og Þuríður. Grímkell hét frilluson hans er bjó á Grímkelsstöðum út frá Gröf. Þessir menn fóru til Íslands með Hallsteini. Hrómundur er síðan bjó í Gröf, Valgerður hét kona hans en Þorsteinn son. Eyjólfur hinn auðgi kom til Íslands með Hrómundi og bjó í Múla í Þorskafirði, Hallgerður hét kona hans en Valgerður dóttir, hún var fríð kona. Þorgeir hét maður er bjó í Þorgeirsdal. Þessir voru allir vinir Hallsteins.
Böðmóður í Skut var víkingur mikill og óeirinn mjög. Hann var son Þorbjarnar loka Eysteinssonar Grímkelssonar Önundarsonar fylsennis. Þeir voru synir Böðmóðs Þorbjörn loki er nam allan Djúpafjörð og Grónes og Vígbjóður faðir Steins mjögsiglanda er Hítdælir og Skógnesingar eru frá komnir. Með Þorbirni loka komu út Styrkár er hann gaf land í Barmi til móts við Hallstein. Dóttir Styrkárs hét Kerling og heldur margkunnig. Helgi hét bróðir Styrkárs er land keypti að Hjöllum í Þorskafirði. Hans synir voru þeir Þórarinn ákafi og Þrándur hinn mikli. Helgi var virðingamaður og þó ekki dæll við alþýðu. Þorgils hét son Þorbjarnar loka. Hann bjó á Þorgilsstöðum í Djúpafirði. Þeir feðgar voru miklir fyrir sér og ættstórir.
Úlfur hinn skjálgi son Högna hins hvíta nam Reykjanes allt milli Þorskafjarðar og Hafrafells. Hann bjó á Miðjanesi. Hans synir voru þeir Jörundur og Atli hinn rauði. Með Úlfi kom út sá maður er Hallur hét, ættstór og mikilhæfur. Hann bjó á Hofstöðum við Þorskafjörð og reisti þar hof mikið því að Úlfur var engi blótmaður. Hallur var mikill höfðingi og hnigu því margir til hans. Rauður hét son hans og bjó í Rauðsdal milli Hofstaða og Berufjarðar. Annar hét Hyrningur, sá var yngri.
Þuríður drikkinn bjó á Kinnarstöðum og átti land inn til Músarár. Hún var mörgu slegin og gerði manna mun mikinn. Synir hennar voru þeir Þorsteinn og Þórhallur, efnilegir menn.