Hersteinn mælti: "Hefir þú svikið mig hundurinn þinn? Nú ef þú ert í nokkurum særum að leyna þá leggst þú niður í götuna og tala eigi orð. En ef þú gerir eigi þetta þá mun eg drepa þig."


Bóndinn leggst þá niður en Hersteinn snýr heim og kallar á menn sína. Þeir taka vopn sín og fara þegar í skóginn og finna Örnólf í götunni. Þeir biðja hann fara með sér þangað sem mælt var að þeir skyldu finnast. Nú fara þeir þar til er þeir koma í eitt rjóður.


Þá mælti Hersteinn til Örnólfs: "Eigi vil eg skylda þig til að tala en far nú sem fyrir þig var lagið."


Bóndi hleypur þá upp á hól einn og blístrar hátt. Síðan hlaupa þar fram tólf menn og var þar Hænsna-Þórir fyrir flokki. En þeir Hersteinn taka þessa menn höndum og drepa. Höggur Hersteinn sjálfur höfuð af Þóri og hefir með sér, ríða nú síðan suður til þings og segja þar þessi tíðindi. Verður Hersteinn ágætur mjög af þessu verki og fær af virðing mikla sem von var að.


Nú er setið yfir málum manna og verða þær málalyktir að Arngrímur goði verður sekur fullri sekt og allir þeir er að brennunni voru nema Þorvaldur Oddsson. Hann skyldi vera utan þrjá vetur og eiga þá útkvæmt. Gefið var fé fyrir hann og svo til farningar öðrum mönnum. Þorvaldur fór utan um sumarið og var leiddur upp á Skotlandi og þjáður þar.


Nú eftir þetta var slitið þinginu og þykir mönnum Þórður vel og skörulega hafa fylgt þessum málum.


Arngrímur goði fór og utan um sumarið og er það eigi ákveðið hversu mikið fé goldið var. Lýkur á þá leið þessum málum.


Ríða menn síðan heim af þingi en þeir fara utan sem mælt var er sekir voru.