Þetta sjá góðgjarnir menn að þau vandræði mundu af standa ef þingheimurinn berðist að seint mundi bætur bíða. Er þá gengið í milli og verða skildir og snúið málum til sættar og var Oddur ofurliði borinn og varð undan að láta fyrir því að bæði var að hann þótti þyngra málahlut eiga að flytja enda varð hann aflvani fyrir liðs sakir. Var þá það mælt að Oddur mundi tjalda á brottu úr þinghelgi en ganga til dóma og að nauðsynjum sínum, fara með sig spaklega, sýna enga þrjósku né hans menn. Sitja menn nú yfir málum og leita að sætta þá og horfir Oddi þunglega fyrir það mest að mikið ofurefli var í móti.
15. kafli
En nú skal segja nokkuð af Hersteini, að honum létti brátt sóttarinnar er þeir riðu til þingsins. Fer hann þá í Örnólfsdal.
Það var einn morgun snemma að hann var í smiðju því að hann var manna hagastur á járn.
Þá kemur þar bóndi einn sá er Örnólfur hét og sagði svo: "Sjúk er kýr mín," sagði hann, "og bið eg þig Hersteinn að þú farir og sjáir hana. Þykir oss nú gott að þú ert aftur kominn og höfum vér þá nokkuð svo iðgjöld föður þíns er oss varð að mestu gagni."
Hersteinn svarar: "Eigi hirði eg um kú þína og kann eg eigi að sjá hvað henni er til meins."
Bóndi svarar: "Mikill er þó munur að faðir þinn gaf mér kúna en þú vilt eigi sjá hana."
Hersteinn svarar: "Eg gef þér aðra kú ef þessi deyr."
Bóndi svarar: "Það vil eg fyrst þiggja að þú sjáir þessa."
Hersteinn sprettur þá upp og verður hermt við og gengur út og bóndinn með honum, snúa síðan í veg til skógar. Liggur þar ein sneiðigata og skógurinn á tvær hendur. Og er Hersteinn fer klifgötuna nemur hann staðar. Hann var allra manna skyggnastur.
Hann mælti þá: "Kom þar fram skjöldur í skóginum?"
Bóndi þagði.