12. kafli


Nú skiljast þeir og er Þórður hinn reiðasti og þykir honum þeir hafa gabbað sig. En þeir ríða nú fyrst á Gunnarsstaði og þykjast allvel leikið hafa að þeir höfðu komið Þórði í málið með sér og voru nú allkátir. Eigi ríða þeir nú suður að sinni en bjóða mönnum til boðs og sækja í Hvammi að ákveðnum tíma.


Hafði Þórður þar mart fyrirboðsmanna og skipar mönnum í sæti um kveldið. Sat hann sjálfur á annan bekk og Gunnar mágur hans og hans menn en Þorkell trefill hjá brúðguma á annan bekk og þeirra boðsmenn. Brúðir skipuðu pall.


Og svo sem borð voru sett og allir menn í sæti komnir þá stökk Hersteinn brúðgumi fram yfir borðið og gengur þar að sem einn steinn stóð.


Hann steig öðrum fæti upp á steininn og mælti: "Þess strengi eg heit," sagði hann, "að áður alþingi er úti í sumar skal eg hafa fullsektað Arngrím goða eða sjálfdæmi ella."


Síðan stígur hann í sæti sitt.


Gunnar stökk þá fram og mælti: "Þess strengi eg heit," sagði hann, "að áður alþingi er úti í sumar skal eg hafa sótt til útlegðar Þorvald Oddsson eða hafa sjálfdæmi ella."


Upp stígur hann undir borð og mælti til Þórðar: "Hví situr þú Þórður og mælir eigi um? Vitum vér að slíkt er þér í hug sem oss."


Þórður svarar: "Kyrrt mun það að sinni."


Gunnar svarar: "Ef þú vilt að vér tölum fyrir þig þá er það til reiðu. En vitum vér að þú ætlar þér Tungu-Odd."


Þórður mælti: "Þér skuluð ráða yðrum ummælum en eg mun því ráða hvað eg tala. Endið þetta vel sem þér hafið um mælt."


Eigi var til nýlundu fleira að boðinu en þó fór það allskörulega fram og er það þraut fór hver sem fyrir lá. Og líður veturinn af hendi.


Og er vorar safna þeir að sér mönnum og fara suður til Borgarfjarðar og koma í Norðurtungu og stefna Arngrími til þings í Þingnes og Hænsna-Þóri.