Nú elur Gunnar á málið við Þórð og segir að honum líst þetta ráð allsæmilegt.


Þórður svarar: "Hví skaltu eigi gefa honum dóttur þína ef þér líkar?"


Gunnar svarar: "Því að eins gef eg hana að það sé jafnvel þinn vilji sem minn."


Þórður kvað beggja þeirra ráð þetta vera skyldu.


"Eg vil," sagði Gunnar, "að þú Þórður fastnir Hersteini konuna."


Þórður svarar: "Sjálfur skaltu það gera að fastna dóttur þína."


Gunnar svarar: "Mér þykir meiri virðing í að þú fastnir hana því að það samir betur."


Þórður lét nú þetta leiðast og fóru nú festar fram.


Þá mælti Gunnar: "Bið eg enn að þú látir hér vera boðið í Hvammi og mun þá gert verða með mestri sæmd."


Þórður bað hann því og ráða ef honum þætti svo betur.


Gunnar segir: "Svo munum vér til ætla að vér látum þegar vera á viku fresti."


Eftir það stíga þeir á bak og snúa á ferð og víkur Þórður á götu með þeim og spurði enn ef nokkuð væri nýtt að segja.


Gunnar svarar: "Ekki höfum vér nú nýlegar frétt en brennu Blund-Ketils bónda."


Þórður spurði hversu það varð en Gunnar sagði allan atburðinn um brennuna og hver henni olli og svo hverjir það gerðu.


Þórður mælti: "Eigi mundi þessu gjaforði svo skjótt ráðið hafa verið ef eg hefði þetta vitað og þykist þér nú allmjög hafa komist fyrir mig í viti og beittan brögðum í þessu. En þó þykir mér eigi víst að þér séuð yður einhlítir að þessu máli."


Gunnar mælti: "Þar er gott til trausts að ætla sem þú ert enda er þér nú skylt að veita mági þínum en vér erum skyldir að veita þér því að margir heyrðu að þú fastnaðir konuna og þetta var allt við þitt ráð gert. Og er nú vel að þér reynið eitt sinn hver yðvar drjúgastur er höfðingjanna því að þér hafið lengi úlfs munni af etist."