Hann gekk út er þeir komu í tún og fagnar þeim og býður allan greiða slíkan sem þeir vilja þegið hafa. Varla náðu þeir að stíga af baki, svo var bóndi beinn við þá.


Þorbjörn mælti: "Mikið er nú um beina þinn og væri mikið undir að þú efndir þetta allt vel er þú hefir heitið okkur."


"Veit eg erindi þitt að féið mun hér skulu eftir vera og skortir hér eigi jörð nóga og góða."


Þorbjörn mælti: "Þiggja munum við það."


Þá víkur hann Þorkatli hjá húsunum og mælti: "Tíðindi mikil eru að segja."


Þorkell spurði hver þau væru.


"Blund-Ketill bóndi var brenndur inni í nótt," sagði Þorbjörn.


"Hverjir gerðu það níðingsverk?" sagði Þorkell.


Þorbjörn sagði þá allt sem farið hafði "og þarf Hersteinn nú þinna heillaráða."


Þorkell mælti: "Eigi þætti mér ráðið hvort eg mundi svo skjótt á boð brugðist hafa ef eg hefði þetta vitað fyrr. En mínum ráðum vil eg nú láta fram fara og förum nú til matar fyrst."


Þeir játuðu því. Þorkell trefill var þá mjög fámálugur og nokkuð hugsi. Og er þeir voru mettir lætur hann taka hesta þeirra. Síðan taka þeir vopn sín og stíga á bak. Ríður Þorkell fyrir þann dag og mælti áður að vel skyldi geyma fjárins í haganum en gefa vel því sem inni var.


Þeir ríða nú út á Skógarströnd á Gunnarsstaði. Það er innarlega á ströndinni. Þar bjó sá maður er Gunnar hét og var Hlífarson, mikill maður og sterkur og hinn mesti garpur. Hann átti systur Þórðar gellis er Helga hét. Gunnar átti tvær dætur. Hét önnur Jófríður en önnur Þuríður.


Þeir koma þar síð dags, stíga af baki fyrir ofan hús. Vindur var á norðan og heldur kalt. Þorkell gengur að durum og klappar en húskarl gengur til hurðar og heilsar vel þeim sem kominn var og spyr hver hann væri.