Þorbjörn karl tekur þá til orða: "Á þá leið er Oddur bóndi," sagði hann, "að þú hefir heitið mér ásjá þinni og vil eg nú til þess taka að þú leggir til nokkur góð ráð og komir til."


Oddur kvaðst svo gera mundu. Ríða þeir nú í Örnólfsdal og koma þar fyrir dag. Voru þá fallin húsin og fölskaður mjög eldurinn. Nú ríður Oddur að húsi einu því er eigi var allt brunnið.


Hann seilist til birkirafts eins og kippir brott úr húsinu, ríður síðan andsælis um húsin með loganda brandinn og mælti: "Hér nem eg mér land fyrir því að hér sé eg nú eigi byggðan bólstað. Heyri það vottar þeir er hjá eru."


Hann keyrir síðan hestinn og ríður í brott.


Hersteinn mælti: "Hvað er nú til ráða? Eigi reyndust þessi vel."


Þorbjörn mælti: "Þegi þú ef þú mátt hvað sem í gerist."


Hersteinn svarar og kvaðst það eina talað hafa er eigi var við of.


Útibúr var óbrunnið, það sem varningur Austmanns var inni og mikið fé annað.


Í þessu hverfur Þorbjörn karl. Nú lítur Hersteinn heim til bæjarins og sér útibúrið opið og út borið féið en engan sér hann manninn. Þar eru bundnar klyfjar. Þar næst heyrir hann hark mikið í túnið, sér nú að heim eru rekin hross öll þau er faðir hans hafði átt, sauðir og naut úr fjósi og allt ganganda fé. Síðan eru klyfjar upp hafðar og því næst öllu á ferð snúið og allt fémætt á brott fært.


Hersteinn víkur nú eftir og sér að Þorbjörn karl rekur féið. Þeir snúa leið sinni ofan eftir héraði í Stafholtstungur og svo út yfir Norðurá.


10. kafli


Sauðamaður Þorkels trefils úr Svignaskarði gekk þenna morgun að fé sínu. Hann sér hvar þeir fara og reka alls kyns fénað.


Hann segir þetta Þorkatli en hann svarar: "Veit eg hverju gegna mun. Það munu vera Þverhlíðingar vinir mínir. Þeir hafa vetrarnauð mikla og munu þeir reka hingað fé sitt. Skal þeim það heimilt. Eg hefi hey ærin. Eru hér og nógar jarðir útifé."