Þórir svarar: "Eiga þykir mér þú nokkuð nauðsynlegra en ávíta mig."
Þeir Arngrímur ríða nú brott undir skógarnef eitt og stíga af hestum og eru nú þar til þess að náttar. En Blund-Ketill þakkar mönnum vel sitt liðsinni og bað hvern mann ríða heimleiðis sem best gegndi.
9. kafli
Svo er sagt að þegar er náttaði ríða þeir Þorvaldur að bænum í Örnólfsdal. Voru þar þá allir menn í svefni. Þeir draga viðarköst að bænum og slá í eldi. Vakna þeir Blund-Ketill eigi fyrr en húsin loguðu yfir þeim. Blund-Ketill spurði hverjir þar kveiktu svo heitan eld. Þórir sagði hverjir voru. Blund-Ketill frétti ef nokkuð skyldi ná sáttum. Þórir sagði að engi er kostur annar en brenna. Þeir skiljast nú eigi fyrr við en hvert mannsbarn er þar inni brunnið.
Hersteinn son Blund-Ketils hafði farið um kveldið til fóstra síns er Þorbjörn hét og var kallaður stígandi. Það er mælt að Þorbjörn væri eigi allur jafnan þar sem hann var sénn.
Hersteinn vaknar um morguninn og spurði hvort fóstri hans vekti.
Hann kveðst vaka "eða hvað viltu?"
"Mig dreymdi að mér þótti sem faðir minn gengi hér inn og loguðu um hann klæðin öll og allur þótti mér sem hann væri eldur einn."
Þeir standa upp og ganga út og sjá skjótt logann. Þeir taka vopn sín og fara hvatlega og voru þá allir menn á brottu er þeir komu þar.
Hersteinn mælti: "Hér eru orðin hörmuleg tíðindi eða hvað er nú til ráða?"
Þorbjörn svarar: "Nú skal neyta þess boðs er Tungu-Oddur hefir oft mælt að eg skyldi til hans koma ef eg þyrfti nokkurs við."
Hersteinn svarar: "Eigi þykir mér það vænlegt."
En þó fara þeir og koma á Breiðabólstað og kalla út Odd. Hann gengur út og tekur við þeim vel og spurði tíðinda. Þeir sögðu slík sem orðin voru. Hann lætur illa yfir.