Þorvaldur þagnar og þótti vel boðið.


Þórir svarar þá: "Eigi er þetta að þiggja og þarf eigi að hugsa um það. Löngu átti eg þenna kost og kalla eg mér lið eigi veitt þó að slíkt sé og til lítils kom mér að gefa þér fé mitt."


Þá mælti Þorvaldur: "Hvað viltu þá gera fyrir lögmálsstaðinn?"


Blund-Ketill mælti: "Eigi annað en þú gerir og einn skapir slíkt er þú vilt."


Þá svarar Þorvaldur: "Svo líst mér sem engi sé annar á ger en að stefna."


Hann stefnir þá Blund-Katli um rán og nefnir sér votta og hefir þau orð og umkvæði sem hann fékk frekust haft.


Nú snýr Blund-Ketill heim að húsum og mætir Austmanninum Erni er hann gekk að varnaði sínum.


Örn spurði: "Ertu sár bóndi er þú ert svo rauður sem blóð?"


Hann svarar: "Eigi er eg sár en eigi er þetta betra. Þau orð eru töluð við mig sem aldrei hafa áður töluð verið. Eg er kallaður þjófur og ránsmaður."


Örn tekur boga sinn og lætur koma ör á streng og kemur þá út í því er þeir stigu á bak. Hann skaut og varð maður fyrir og lætur sígast niður af hestinum og var það Helgi son Arngríms goða. Þeir hlaupa að honum.


Þórir otar sér fram milli manna og hratt mönnum frá sér og biður gefa sér rúm "því að mér mun mest um hugað."


Hann laut að Helga niður og var hann þá dauður.


Þórir mælti: "Er lítill mátturinn fóstri minn?"


Þórir réttist þá frá honum og mælti: "Talaði sveinninn við mig. Sagði hann tvisvar hið sama, þetta hérna:"


Brenni, brenni

Blund-Ketil inni.


Arngrímur svarar þá: "Nú fór sem mig varði að oft hlýtur illt af illum og grunaði mig að mikið illt mundi af þér hljótast Þórir og eigi veit eg hvað sveinninn hefir sagt þó að þú fleiprir eitthvert. En þó er eigi ólíklegt að slíkt verði gert. Hófst þetta mál illa. Kann og vera að svo lúkist."