Og mæli eg þetta eigi fyrir því að eg unni engum að njóta gripanna ef eg vissi að að nytjum mætti verða. En nú mæli eg því svo mikið um," segir hún, "að mér þykir illt að menn hljóti svo mikil þyngsl af mér sem eg veit að verða mun ef af er brugðið því sem eg segi fyrir."

Þóroddur hét að gera eftir því sem hún beiddi. Eftir þetta megnaðist sóttin við Þórgunnu. Lá hún eigi mörg dægur áður hún andaðist. Líkið var fyrst borið í kirkju og lét Þóroddur gera kistu að líkinu.

Um daginn eftir lét Þóroddur bera út rekkjuklæðin í veður og færði til viðu og lét hlaða þar bál hjá. Þá gekk að Þuríður húsfreyja og spyr hvað hann ætlar að gera af rekkjuklæðunum. Hann kveðst ætla að brenna þau í eldi sem Þórgunna hafði fyrir mælt.

"Það vil eg eigi," segir hún, "að þvílíkar gersemar séu brenndar."

Þóroddur svarar: "Hún mælti mikið um að eigi mundi duga að bregða af því er hún mælti fyrir."

Þuríður mælti: "Slíkt er eigi nema öfundarmál eitt. Unni hún engum manni að njóta, hefir hún því svo fyrir mælt. En þar munu engi býsn eftir koma hversu sem slíku er breytt."

"Eigi veit eg," segir hann, "að þetta takist annan veg en hún hefir fyrir sagt."

Síðan lagði hún hendur yfir háls honum og bað að hann skyldi eigi brenna rekkjubúnaðinn. Sótti hún þá svo fast að honum gekkst hugur við og kom þessu máli svo að Þóroddur brenndi dýnur og hægindi en hún tók til sín kult og blæjur og ársalinn allan og líkaði þó hvorigu vel.

Eftir þetta var búin líkferð og fengnir til skilgóðir menn að fara með líkinu og góðir hestar er Þóroddur átti. Líkið var sveipað líndúkum en saumað eigi um og síðan lagt í kistu. Fóru þeir síðan suður um heiði svo sem leiðir liggja.