Blund-Ketill svarar: "Eigi skulum vér gjafar að biðja. Láttu Odd og Arngrím gera verð fyrir þína hönd en þar á ofan vil eg gefa þér gjafir."
Þórir kveðst eigi hey til hafa að selja "enda vil eg eigi selja."
Þá gengur Blund-Ketill út og þeir félagar og sveinninn með þeim.
Þá tekur Blund-Ketill til orða: "Hvort er heldur að fóstri þinn hefir engi hey til sölu eða vill hann eigi selja?"
Sveinninn svarar: "Hefir hann víst ef hann vill."
Blund-Ketill mælti: "Fylgdu oss þangað til sem heyin eru."
Hann gerir svo. Nú gerir Blund-Ketill til fjár Þóris og hugðist svo að, þó að algjafta væri til alþingis, að þó mundi af ganga fimm stakkar. Og eftir þetta ganga þeir inn.
Blund-Ketill mælti: "Svo hyggst mér um heykost þinn að góður fengur mun af ganga þó að fé þínu öllu sé inni gefið til alþingis og vil eg það kaupa."
Þórir svarar: "Hvað skal eg þá hafa annan vetur ef þá er slíkur vetur eða verri?"
Blund-Ketill svarar: "Gera mun eg þér þann kost að fá þér jafnmikinn kost í heyjum í sumar og þó að engu verri og færa í garða þína."
Þórir svarar: "Ef þér hafið nú yður eigi heybjörg hvað munuð þér þá heldur hafa í sumar? En veit eg að er sá ríkismunur okkar að þú munt taka mega hey af mér ef þú vilt."
Blund-Ketill svarar: "Eigi er þann veg upp að taka. Það veistu að silfur gengur í allar skuldir hér á landi og gef eg þér það við."
Þórir svarar: "Eigi vil eg silfur þitt."
"Þá taktu þvílíka vöru sem þeir gera til handa þér, Oddur og Arngrímur."
"Fátt er hér verkmanna," segir Þórir, "en eg nenni lítt ferðum og vil eg eigi vasast í slíku."
Blund-Ketill svarar: "Þá skal eg láta færa þér heim."
Þórir mælti: "Eigi hefi eg húsakost til þess að örvænt sé að eigi spillist."