Hann sagði það af sjálfdáðum orðið "en sagt er mér að Hænsna-Þórir muni hafa hey til sölu."
Þeir svöruðu: "Af honum munum vér eigi fá nema þú farir með oss og mun hann þá þegar selja ef þú gengur í vörslu fyrir oss um kaupin."
Hann svarar: "Það má eg gera að fara með yður en það er sannlegt að þeir selji sem til hafa."
Þeir fara snemma um morguninn og var á norðan strykur sá og heldur kaldur. Þórir bóndi var úti staddur í það mund, sér mennina fara að garði, gengur inn síðan og rekur aftur hurð og lætur fyrir loku, fer til dagverðar.
Nú er drepið á dyr.
Sveinninn Helgi tekur til orða: "Gakktu út fóstri minn því að menn munu vilja hitta þig."
Þórir kveðst mundu matast fyrst en sveinninn hleypur undan borðum og gengur til hurðar og heilsar þeim vel er komnir voru. Blund-Ketill spurði hvort Þórir væri heima. Hann sagði svo væri.
"Bið þú hann útgöngu," sagði hann.
Sveinninn gekk inn og sagði að Blund-Ketill var kominn úti og vildi hitta hann.
Þórir svaraði: "Af hverju mun Blund-Ketill draga nasirnar? Kynlegt ef hann fer að góðu. Ekki erindi á eg við hann."
Sveinninn fer og sagði þeim að Þórir vildi eigi út ganga.
"Já," sagði Blund-Ketill, "þá skulum vér inn ganga."
Þeir ganga til stofu og var þeim heilsað en Þórir þagði.
"Svo er varið," sagði Blund-Ketill, "að vér viljum kaupa hey að þér Þórir."
Þórir svarar: "Eigi er mér þitt fé betra en mitt."