Og sjá þú svo fyrir að hann er engi klektunarmaður og er því fangs von að frekum úlfi er hann er ef hann fær eigi þann áverka í fyrstunni er honum vinnist skjótt til bana."
Og er þeir riðu ofan af heiðinni að bænum þá sáu þeir að Björn var úti á túnvelli og smíðaði vögur og var ekki manna hjá honum og engi vopn nema lítil öx og tálguhnífur mikill er hann hafði tekið með úr vagaborunum. Hann var spannar fram frá hefti.
Björn sá að þeir Snorri goði riðu ofan af heiðinni og á völlinn. Hann kenndi þegar mennina. Snorri goði var í blárri kápu og reið fyrstur.
Það var fangaráð Bjarnar að hann tók hnífinn og gekk snúðigt í móti þeim. Hann tók annarri hendi í kápuermina er þeir Snorri fundust en annarri hendi hnefaði hann hnífinn og hélt sem honum var hægst að leggja fyrir brjóst Snorra ef honum sýndist það ráð.
Björn heilsaði þeim þegar þeir fundust en Snorri tók kveðju hans en Mávi féllust hendur því að honum þótti Björn skjótlegur til meins við Snorra ef honum væri nokkuð gert til ófriðar. Síðan sneri Björn á leið með þeim Snorra goða og spurði almæltra tíðinda og hélt þeim tökum er hann fékk í fyrstunni.
Síðan tók Björn til orða: "Svo er háttað Snorri bóndi að eg dylst eigi við að eg hafi gert þá hluti til yðvar er þér megið vel sakir á gefa og mér er það sagt að þér hafið þungan huga til mín. Nú er mér best að skapi," segir hann, "ef þér eigið nokkur erindi við mig önnur en að koma hér um farinn veg að þér lýsið yfir því. En ef það er eigi þá vil eg að þér játið mér griðum og vil eg snúa aftur því að eg er eigi leiðifífl."