Eftir þetta var slitið þinginu. Segir Bolli Ljóti að hann mun ríða heimleiðis og þakkar honum vel alla sína liðveislu og skiptust þeir fögrum gjöfum við og skildu við góðum vinskap. Bolli tók upp bú Sigríðar á Skeiði því að hún vildi fara vestur með honum. Ríða þau veg sinn þar til er þau koma á Miklabæ til Arnórs. Tók hann harðla vel við þeim. Dvöldust þar um hríð og sagði Bolli Arnóri allt um skipti þeirra Svarfdæla hversu farið hafði.
Arnór mælti: "Mikla heill hefir þú til borið um ferð þessa við slíkan mann sem þú áttir þar er Þorsteinn var. Er það sannast um að tala að fáir eða öngvir höfðingjar munu sótt hafa meira frama úr öðrum héruðum norður hingað en þú, þeir sem jafnmarga öfundarmenn áttu hér fyrir."
Bolli ríður nú í brott af Miklabæ við sína menn og heim suður. Tala þeir Arnór til vináttu með sér af nýju að skilnaði.
En er Bolli kom heim í Tungu varð Þórdís húsfreyja hans honum fegin. Hafði hún frétt áður nokkuð af róstum þeirra Norðlendinga og þótti mikið í hættu að honum tækist vel til. Situr Bolli nú í búi sínu með mikilli virðingu.
Þessi ferð Bolla var ger að nýjum sögum um allar sveitir og töluðu allir einn veg um að slík þótti varla farin hafa verið nálega. Óx virðing hans af slíku og mörgu öðru. Bolli fékk Sigríði gjaforð göfugt og lauk vel við hana.
Og höfum vér eigi heyrt þessa sögu lengri.