Þá er þeir Steinþór af Eyri koma til nausta á Bakka settu þeir þar upp skip sitt og gengu þeir bræður heim til bæjar. En þar var tjaldað yfir Bergþóri um nóttina.

Það er sagt að Þorgerður húsfreyja vildi eigi fara í rekkju um kveldið hjá Þormóði bónda sínum. Og í það bil kom maður neðan frá naustinu og sagði þá Bergþór látinn. Og er þetta spurðist fór húsfreyja í rekkju sína og er eigi getið að þeim hjónum yrði þetta síðan að sundurþykki.

Steinþór fór heim á Eyri um morguninn og var atfaralaust með mönnum veturinn þaðan í frá.

En um vorið er leið að stefnudögum þótti góðgjörnum mönnum í vant efni komið að þeir menn skyldu missáttir vera og deildir við eigast er þar voru göfgastir í sveit. Völdust þá til hinir bestu menn, vinir hvorratveggju, að leita um sættir með þeim. Og var Vermundur hinn mjóvi fyrirmaður að því og með honum margir góðgjarnir menn þeir er voru tengdamenn hvorratveggju. En það varð af um síðir að grið voru sett og þeir sættust og er það flestra manna sögn að málin kæmu í dóm Vermundar. En hann lauk gerðum upp á Þórsnessþingi og hafði við hina vitrustu menn er þar voru komnir.

Það er frá sagt sáttargerðinni að mannalátum var saman jafnað og atferðum. Var það jafnt gert sár Þórðar blígs í Álftafirði og sár Þórodds sonar Snorra goða. En sár Más Hallvarðssonar og högg það er Steinþór hjó til Snorra goða, þar komu í móti þriggja manna víg þeirra er féllu í Álftafirði. En þau víg er Styr vó í hvorn flokk voru jöfn látin. En á Vigrafirði var líkt látið víg Bergþórs og sár þriggja Þorbrandssona en víg Freysteins bófa kom á móti þeim manni er áður var ótaldur og látist hafði af Steinþóri í Álftafirði. Þorleifi kimba var bætt fóthöggið. En sá maður er látist hafði af Snorra goða í Álftafirði kom fyrir frumhlaup það að Þorleifur kimbi hafði þar víg vakið.