Eyrbyggja Saga 45 part 5
Þóroddur Þorbrandsson hafði svo mikið sár aftan á hálsinn að hann hélt eigi höfðinu. Hann var í leistabrókum og voru votar allar af blóðinu. Heimamaður Snorra goða skyldi draga af honum. Og er hann skyldi kippa brókinni fékk hann eigi af honum komið.
Þá mælti hann: "Eigi er það logið af yður Þorbrandssonum er þér eruð sundurgerðamenn miklir að þér hafið klæði svo þröng að eigi verður af yður komið."
Þóroddur mælti: "Vantekið mun á vera." Eftir það spyrnti sá öðrum fæti í stokkinn og togaði af öllu afli og gekk eigi af brókin.
Þá gekk til Snorri goði og þreifaði um fótinn og fann að spjót stóð í gegnum fótinn milli hásinarinnar og fótleggsins og hafði níst allt samt, fótinn og brókina. Mælti Snorri þá að hann væri eigi meðalsnápur að hann hafði eigi hugsað slíkt.
Snorri Þorbrandsson var hressastur þeirra bræðra og sat undir borði hjá nafna sínum um kveldið og höfðu þeir skyr og ost. Snorri goði fann að nafni hans bargst lítt við ostinn og spurði hví hann mataðist svo seint. Snorri Þorbrandsson svaraði og sagði að lömbunum væri tregast um átið fyrst er þau eru nýkefld.
Þá þreifaði Snorri goði um kverkurnar á honum og fann að ör stóð um þverar kverkurnar og í tunguræturnar. Tók Snorri goði þá spennitöng og kippti brott örinni og eftir það mataðist hann.
Snorri goði græddi þá alla, Þorbrandssonu. Og er hálsinn Þórodds tók að gróa stóð höfuðið gneipt af bolnum nokkuð svo. Þá segir Þóroddur að Snorri vildi græða hann að örkumlamanni en Snorri goði kvaðst ætla að upp mundi hefja höfuðið þá er sinarnar hnýtti. En Þóroddur vildi eigi annað en aftur væri rifið sárið og sett höfuðið réttara. En þetta fór sem Snorri gat að þá er sinarnar hnýtti hóf upp höfuðið og mátti hann lítt lúta jafnan síðan. Þorleifur kimbi gekk alla stund síðan við tréfót.