Helgi af Skeiði var og þar og eggjar þá fast og kvað nú vel að þeir Bolli reyndu hvort honum væri kapp sitt og metnaður einhlítt eða hvort nokkurir menn norður þar mundu þora að halda til móts við hann. "Þarf nú og eigi að spara að drepa þá alla. Mun það og leiða öðrum," sagði Helgi, "að veita oss ágang."
Bolli heyrir orð Helga og sér hvar hann er kominn út á ísinn. Bolli skýtur að honum spjóti og kemur á hann miðjan. Fellur hann á bak aftur í ána en spjótið flýgur í bakkann öðrum megum svo að fast var og hékk Helgi þar á niður í ána. Eftir það tókst þar bardagi hinn skarpasti. Bolli gengur að svo fast að þeir hrökkva undan er nær voru. Þá sótti fram Þorsteinn í móti Bolla og þegar þeir fundust höggur Bolli til Þorsteins á öxlina og varð það mikið sár. Annað sár fékk Þorsteinn á fæti. Sóknin var hin harðasta. Bolli varð og sár nokkuð og þó ekki mjög.
Nú er að segja frá Óttari. Hann ríður upp á Völlu til Ljóts og þegar þeir finnast mælti Óttar: "Eigi er nú setuefni Ljótur," sagði hann, "og fylg þú nú virðing þinni er þér liggur laus fyrir."
"Hvað er nú helst í því Óttar?"
"Eg hygg að þeir berjist hér niðri við ána Þorsteinn af Hálsi og Bolli og er það hin mesta hamingja að skirra vandræðum þeirra."
Ljótur mælti: "Oft sýnir þú af þér mikinn drengskap."
Ljótur brá við skjótt og við nokkura menn og þeir Óttar báðir. Og er þeir koma til árinnar berjast þeir Bolli sem óðast. Voru þá fallnir þrír menn af Þorsteini. Þeir Ljótur ganga fram í meðal þeirra snarlega svo að þeir máttu nær ekki að hafast.
Þá mælti Ljótur: "Þér skuluð skilja þegar í stað," segir hann, "og er þó nú ærið að orðið. Vil eg einn gera milli yðvar um þessi mál en ef því níta aðrir hvorir þá skulum vér veita þeim atgöngu."